138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að gera athugasemd við þá fundarstjórn sem hér er viðhöfð. Við höfum komið upp á undangengnum vikum og gert athugasemd við þann stutta tíma sem við höfum hér í stjórnarandstöðunni til að spyrja ráðherra út í störf þeirra. Þingmenn eiga að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og frú þingforseti er forseti okkar allra. Ef rannsóknarskýrsla Alþingis á að hafa kennt okkur eitthvað er það að það var skortur á aðhaldi frá þinginu. Það er einn grundvallarmunur á því að vera í stjórn eða í stjórnarandstöðu: Stjórnarþingmenn sitja þingflokksfundi með hæstv. ráðherrum og geta spurt spurninga þar. Við erum ekki í sömu aðstöðunni hér í stjórnarandstöðunni og þess vegna fer ég fram á það við frú forseta að hún stuðli að því að við þingmenn getum sinnt okkar aðhaldshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá verðum við að geta fengið að spyrja hæstv. ráðherra spurninga. Það er nú annað eins í gangi í íslensku þjóðfélagi í dag.