138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

564. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í örstuttu máli gengur breytingin út á það að ef viðskiptabanki eða sparisjóður, lánafyrirtæki eða dótturfélag þeirra, á yfir 40% eignarhlut í viðskiptaaðila sínum, skuli ákvæði í VII. og VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, gilda um viðskiptaaðilana eftir því sem við á. Þetta þýðir einfaldlega að þau fyrirtæki sem hafa verið yfirtekin af bönkum og lánafyrirtækjum þurfa að vera með sömu upplýsingaskyldu og fyrirtæki sem eru skráð á markaði í Kauphöllum.

Rökin eru afskaplega einföld: Við vitum að það er mjög viðkvæmt af mörgum ástæðum, út frá réttlætisrökum, út frá samkeppnisaðilum og öðru slíku, að fjármálafyrirtækin séu að taka yfir fyrirtæki. Stærstu dæmin nú eru Húsasmiðjan, Hagar, Icelandair Group og ýmislegt fleira. Við eigum væntanlega eftir að sjá á næstunni fleiri slík dæmi. Til þess að við getum tryggt að gegnsæið sé sem mest, og að það sé hafið yfir grun að í þeim lánastofnunum sem tekið hafa þessi fyrirtæki eignarhaldi séu menn að vinna þetta eins faglega og mögulegt er, verðum við að hafa gegnsæjar reglur og við eigum fyrirmyndirnar í því í reglum um fyrirtæki sem eru skráð í Kauphöllinni. Það er því mjög mikilvægt að við göngum frá þessu sem allra fyrst og mun það án nokkurs vafa auka traust og trúverðugleika á fjármálamarkaði okkar og á markaði almennt.

Nú erum við í hv. viðskiptanefnd að fjalla um lög um fjármálafyrirtæki. Þar hef ég, ásamt þeim sem þarna eru flutningsmenn og eru í nefndinni, fulltrúum minni hlutans, lýst eftir því að þetta komi inn í lögin, þ.e. þessi efnisgrein. Eru ágætar vonir um það og hv. formaður viðskiptanefndar, Lilja Mósesdóttir, hefur tekið vel í það. Við munum sjá það á næstu dögum hvort þessi efnisgrein fer inn sem breytingartillaga frá nefndinni og er þá markmiðinu með frumvarpinu náð. En ef ekki er þetta alla vega innlegg í það að reyna að koma þessum sjálfsögðu breytingum alla leið því að við þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru þurfum við að vinna hratt til þess að skapa hér sem bestar og eðlilegastar leikreglur og þess vegna er frumvarpið lagt fram. Ef við náum þessu fram núna í hv. viðskiptanefnd, í breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, verður enginn glaðari en sá sem hér stendur.