138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar fékk framgengt því ætlunarverki sínu að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu blasti við að fyrr en síðar hlytu menn að þurfa að takast á við ýmis erfið pólitísk úrlausnarefni. Það vita allir að sá eldmóður sem fylgdi umsókninni af hálfu margra áhugamanna er ekki til staðar í dag, það hefur kulnað í hugsjónaglæðunum. Áfram strita menn þó við að semja sig til aðildar.

Það sem hefur helst frést af þessu máli er að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins brást 24. febrúar sl. við málaleitan íslensku ríkisstjórnarinnar. Álit framkvæmdastjórnarinnar birtist okkur nýverið. Það kemur fátt á óvart í málaflokkum landbúnaðarins og sjávarútvegsins, álitið var eins konar samandregin skoðun á kunnum viðhorfum sambandsins til þeirra mála.

Þetta plagg Evrópusambandsins varð mér tilefni til þess að óska eftir sérstökum fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis sem haldinn var fyrr í vetur til þess að fara yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin. Það var fróðleg en nauðsynleg yfirferð sem varpaði skýru ljósi á málið allt. Það sem blasir við í landbúnaðarmálum er í rauninni heilmikið. Aðild okkar að Evrópusambandinu mun fela í sér að það þarf í rauninni að falla frá þeirri landbúnaðarstefnu sem hér hefur verið fylgt. Það skal minnt á að sú stefna hefur verið mótuð og hún framkvæmd með atbeina allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi um langa hríð. Það er ljóst mál að það verður að hverfa frá stuðningsfyrirkomulagi því sem hefur ríkt hér, hvort sem um er að ræða í mjólkurframleiðslu eða sauðfjárrækt. Sá stuðningur hér á landi er í veigamiklum atriðum framleiðslutengdur. Það rímar hins vegar alls ekki við landbúnaðarpólitík Evrópusambandsins, aðild að Evrópusambandinu yrði þess valdandi að það yrði að láta af slíkum stuðningi.

Í annan stað er ljóst að tollverndin í landbúnaði hyrfi með ESB-aðild. Ytri tollar bandalagsins mundu gilda og ná til landbúnaðarins eins og annars. Það þarf ekki að orðlengja neitt um áhrifin á landbúnaðarframleiðsluna, það yrði hægt að flytja inn tollfrjálsar landbúnaðarvörur frá Evrópusambandsríkjum við aðild.

Í þriðja lagi er ljóst að umsýslukostnaður mundi snaraukast. Það staðfestir raunar hæstv. utanríkisráðherra í orðaskiptum okkar á Alþingi nú fyrr í vetur.

Ég vil síðan nefna kröfu Evrópusambandsins, afdráttarlausa kröfu, um innflutning á lifandi dýrum. Við þekkjum það að Evrópusambandið hefur lengi verið að hamast við að fá þessu framgengt en við Íslendingar höfum hafnað því af góðum og gildum ástæðum sem ég ætla í sjálfu sér ekki að rekja núna.

Þetta eru allt saman grundvallaratriði, þetta eru ekki spurningar um útfærsluatriði né eru hér á ferðinni umsemjanleg framkvæmdaatriði. Þetta eru sjálf meginefnin í Evrópusambandinu, Evrópuréttinum sjálfum. Menn þurfa ekkert að ganga hér að neinu gruflandi. Nú er þess vegna komið að því að íslensk stjórnvöld þurfa að fara að svara, láta af þögninni. Hér þarf einfaldlega að krefjast afdráttarlausra svara.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að það ríkti fullkominn einhugur í ríkisstjórninni varðandi framgang Evrópusambandsumsóknarinnar. Það kom dálítið á óvart því að látið hefur verið í veðri vaka að svo væri ekki. Nú vitum við þá a.m.k. þetta. Það er þess vegna mjög áríðandi að ráðherrarnir í ríkisstjórninni svari þeim stórpólitísku spurningum sem fyrir þá eru lagðar með ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nú dugir ekki að tala með óljósum hætti, það er einfaldlega komið að því að þessum spurningum sé svarað, (Forseti hringir.) m.a. þeim spurningum sem lúta að landbúnaðinum og ég hef gert grein fyrir hér varðandi fyrirspurn mína.