138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þakka ég hæstv. utanríkisráðherra ítarlega skýrslu og vil taka undir hrós til starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem hafa starfað mjög vel á undanförnu erfiðu ári. Ég mun í máli mínu einungis koma inn á fáein atriði sem getið er í skýrslunni enda er hún ákaflega viðamikil.

Virðulegi forseti. Það er mér ekkert launungarmál að ég hef löngum verið þeirra skoðunar að hagsmunum Íslands sé best borgið í náinni samvinnu við Evrópuríkin og þess vegna tel ég að ákvörðun Alþingis þann 16. júlí í fyrra, um að leggja fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu, sé með merkilegri skrefum sem stigin hafa verið í utanríkismálum á Íslandi. Það er ekki nýlunda að skoðanaágreiningur sé um stór skref sem stigin eru í utanríkismálum, svo háttaði um inngönguna í NATO árið 1949, um aðild okkar að EFTA árið 1970 og um EES-samninginn árið 1994.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er einungis fyrsta skrefið á langri leið, nú tæpu ári eftir að umsókn var afhent hafa formlegar viðræður ekki hafist. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til við ráðherraráð að gengið verði til samningaviðræðna en vegna ýmissa formsatriða hefur ráðherraráðið ekki afgreitt það en búast má við að það verði gert á næstunni. Þegar það hefur verið samþykkt hefjast samningaviðræðurnar sem gera má ráð fyrir að taki eitt eða tvö ár. Mikilvægt er að nota þann tíma vel til kynningar og upplýsingar.

Í umfjöllun utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu var lögð áhersla á að vanda alla málsmeðferð og umræðu. Meiri hluti nefndarinnar samþykkti eins og kunnugt er ítarlegt nefndarálit þar sem fjallað var um mikilvægustu hagsmuni okkar í samningaviðræðunum og bjó í raun til vegvísi umsóknarferlisins. Ánægjulegt er að hæstv. utanríkisráðherra ákvað strax í upphafi að nota nefndarálitið sem vegvísi og endurspeglast það í störfum samninganefndarinnar.

Formaður samninganefndarinnar kom á fund utanríkismálanefndar í síðustu viku og skýrði frá því að undirbúningsvinna við viðræðurnar hefði staðið yfir í allan vetur og gert væri ráð fyrir að allir hóparnir skiluðu skýrslum um þá kafla sem þeir bæru ábyrgð á í haust. Þetta kemur einnig fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Jafnframt greindi aðalsamningamaðurinn frá því að ekki hefði enn verið ákveðið í hvaða röð kaflarnir yrðu teknir fyrir í samningaviðræðunum.

Frá upphafi hefur verið ljóst að viðkvæmustu kaflar samningaviðræðnanna yrðu um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur fram að heildarskipulag og framkvæmd íslensku sjávarútvegsstefnunnar sé vel samrýmanleg reglum Evrópusambandsins. Ísland aðhyllist sjálfbæra þróun og fylgir varúðarreglunni við fiskveiðistjórnun. Í álitinu kemur einnig fram að framkvæmdastjórnin telji aðild Íslands að ESB geta haft veruleg áhrif á sjávarútvegsstefnuna.

Þá hefur sameiginlega EES-þingmannanefndin hvatt til þess að við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar beri að reyna að færa hana nær þeirri íslensku, m.a. með því að leggja af ríkisstyrki og færa ákvörðunarvald að hluta frá Brussel til aðildarríkjanna. Í viðræðum sem ég hef átt við þingmenn á Evrópuþinginu og starfsmenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur komið fram að engar líkur séu taldar á að breyting verði á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika við skipulag veiða. Enn fremur hefur komið fram að talið sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir hið allra fyrsta til að draga úr eða banna brottkast og í þeirri andrá sagt að ekki sé tími til að bíða með slíkar ráðstafanir þangað til ný sjávarútvegsstefna verði samþykkt.

Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar kemur fram að niðurstaða samningaviðræðnanna eigi að valda sem minnstri röskun á högum bænda og skapa íslenskum landbúnaði sem hagstæðust rekstrarskilyrði og tryggja búsetu í dreifbýli. Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að sérfræðingar hafi verið kallaðir fyrir samningahópinn til að útskýra einstaka þætti ESB-löggjafarinnar til að auka þekkingu á viðfangsefninu, þ.e. á reglum um landbúnað. Einnig kemur fram að samráð hafi verið haft við einstök aðildarríki og framkvæmdastjórn ESB til að auka skilning á inntaki og framkvæmd sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar og jafnframt að fulltrúar úr samningahópnum hafi farið í kynnisferðir til Skotlands og Finnlands. Allt þetta er af hinu góða og sýnir vandaða vinnu við undirbúning málsins. Ljóst er að stuðningi okkar við íslenskan landbúnað er allt öðruvísi háttað en gerist í Evrópusambandinu en við eigum að vera óhrædd við að breyta um kerfi ef það tryggir markmiðið sem stefnt er að, nefnilega að tryggja búsetu í dreifbýli og skapa íslenskum landbúnaði sem hagstæðust rekstrarskilyrði.

Ég hef aðeins vikið að þessum tveim stóru málum en önnur skipta auðvitað einnig máli og má þar nefna myntsamstarfið en ljóst er að það væri mjög heppilegt fyrir efnahag okkar ef við gætum sem fyrst fengið stuðning við krónuna frá ESB og Seðlabanka Evrópu.

Mig langar aðeins að nefna nokkra aðra þætti sem koma fram í skýrslunni. Ég vil taka undir það sem kemur fram að nauðsyn sé á virkri hagsmunagæslu og staðfestu í alþjóðasamskiptum um málefni norðurslóða. Það þarf að leggja áherslu á það og hlýtur að vera eitt af forgangsverkefnum utanríkisþjónustunnar nú þegar áhugi á umhverfi og auðlindum á norðurslóðum hefur aukist.

Aðeins um mannréttindamál. Í skýrslunni er getið þeirrar skoðunar íslenskra stjórnvalda að umræða um ástand mannréttindamála í einstökum ríkjum og á tilteknum landsvæðum sé nauðsynleg til að veita ríkjum aðhald á þeim sviðum. Utanríkismálanefnd hefur verið gerð grein fyrir tvíhliða samskiptum Íslands við önnur ríki um mannréttindamál, svo sem það sem hefur áður verið nefnt hér um versnandi ástand í mannréttindamálum í Íran og um dóm yfir 16 ára stúlku í Bangladess. Einnig hefur afstöðu íslenskra stjórnvalda til hernámsins í Palestínu verið komið á framfæri við ísraelsk stjórnvöld og einnig hefur hér verið minnst á bréf sem hæstv. ráðherra sendi starfsbróður sínum í Litháen vegna stöðu samkynhneigðra þar í landi. Fulltrúar í utanríkismálanefnd hafa velt því fyrir sér hvort rétt væri að þingið hefði aðra aðkomu að mótmælum af þessu tagi. Það hefur ekki verið hefð fyrir því eða venja hingað til en væntanlega munum við ræða í nefndinni á næstu dögum um hvort það sé rétt.

Það er varla hægt að fjalla um skýrslu um utanríkismál án þess að minnast á varnar- og öryggismál. Miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á alþjóðlegri nálgun í þessum málaflokki. Hefðbundnar skilgreiningar á öryggi og vörnum eiga ekki lengur við og víðtækari skilgreining á öryggis- og varnarhagsmunum Íslands er þess vegna nauðsynleg. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann ætli að hrinda úr vör stefnumótun um heildstæða stefnu í varnar- og öryggismálum og ber að fagna því.

Fyrir utanríkismálanefnd er til umfjöllunar tillaga um að breyta Varnarmálastofnun eða fella hana niður og færa verkefnin inn í borgaralega stofnun. Mér líst vel á það markmið en það þarf að vanda vel til verkefnisins og huga vel að öllum þáttum, en markmið tillögunnar styð ég eindregið.

Síðan nokkur orð um upplýsingastarf. Hér hefur komið fram að mikið hefur verið að gera í því hjá starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Minnst hefur verið á endurreisnina, Icesave og gos í Eyjafjallajökli. Mig langar að segja að það skipti máli hvernig staðið verður að allri upplýsingagjöf til landsmanna þegar samningaviðræðurnar fara í gang. Það skiptir miklu máli að upplýsingarnar verði sem mestar og bestar því að þekking vísar bábiljum best á bug og það má búast við að nóg verði af ranghugmyndum um eðli viðræðnanna og þess vegna er nauðsynlegt að halda vel utan um það.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir heldur utan um starfshóp utanríkismálanefndar sem ætlar að gera tillögur um (Forseti hringir.) hvernig að þessu verði staðið og von er á tillögunum frá hópnum á næstu dögum.