138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ágæta yfirferð. Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum Valgerðar Bjarnadóttur þótt við séum algjörlega ósammála um Evrópumálin en hv. þingmaður hefur brennandi trú á að þetta sé rétta leiðin fyrir Ísland og það er eitthvað sem maður ber virðingu fyrir.

Nokkrar spurningar vöknuðu við ræðu hv. þingmanns og m.a. minntist þingmaðurinn á landbúnaðarkerfið okkar, sem er mjög ólíkt því sem Evrópusambandið hefur yfir að ráða, og hv. þingmaður lýsti þeirri skoðun sinni að skapa ætti íslenskum landbúnaði hagstæð rekstrarskilyrði. Miðað við að verið er að laga íslenska stofnanakerfið í landbúnaðinum að kerfi Evrópusambandsins hvernig sér þá hv. þingmaður íslenska landbúnaðarkerfið fyrir sér með þessum hagstæðu rekstrarskilyrðum innan Evrópusambandsins? Hvað er það sem er átt við með því og hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér? Þetta er fyrri spurningin.

Síðan er það sú síðari, hún varðar umræðuna um upplýsingagjöf til almennings þegar samningaviðræðurnar eru farnar af stað. Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því hvernig sú upplýsingagjöf komi til með að fara fram og hvernig hún verður fjármögnuð? Verður farið yfir bæði já-hliðina og nei-hliðina á þessu máli öllu eða verður um að ræða kosningabaráttu fyrir því að selja væntanlegan samning á reikning Evrópusambandsins sem kemur til með að leggja gríðarlegt fé í markaðssetninguna á sjálfu sér þegar þar að kemur?