138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér vannst ekki tími til að lesa eða finna í stjórnarskránni ákvæðið um að þingmenn skuli eingöngu fara að sannfæringu sinni. Alþingi er kosið eftir að þjóðin hefur greitt atkvæði og þá eiga þingmenn að taka ákvörðun, frú forseti, eftir sannfæringu sinni, alveg óháð því hvað kjósendur þeirra vilja. Ég er mjög hlynntur því að þjóðin greiði atkvæði, en það þarf að gilda það sem þjóðin tekur ákvörðun um. Þannig að ef hún tekur ákvörðun um eitt eða annað hafi það einhverjar afleiðingar. Það er ekkert sem tryggir það núna að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hafi einhverjar afleiðingar vegna þess að hverjum einasta þingmanni sem kosinn er á þing, ber að fara að eigin sannfæringu. Ég var að reyna að koma því að.

Trúa menn því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason muni greiða atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið af því þjóðin var nýbúin að samþykkja það með einhverjum naumum meiri hluta? Trúa menn því virkilega? Halda menn að sannfæringin hans sé einskis virði? (Forseti hringir.)