138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

Norræna ráðherranefndin 2009.

458. mál
[17:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna framkominni skýrslu. Hún er mjög umfangsmikil og erfitt að gera henni skil á tíu mínútum en það eru nokkur verkefni sem mig langar að grípa í. Ég fagna því og það kom fram í máli hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna líka, að norrænu samstarfsráðherrarnir og menntamálaráðherrarnir stóðu fyrir sérstakri fjárhagsaðstoð fyrir íslensk ungmenni vegna efnahagskreppunnar. Það voru 300 ungmenni sem fengu styrki og mér finnst það til mikillar fyrirmyndar hvað brugðist var hratt við og ungmenni okkar styrkt, þ.e. þau sem áttu í erfiðleikum og stunduðu nám á Norðurlöndum.

Mig langar líka að grípa niður í Norræna menningarsjóðinn. Fjallað er um hann á bls. 16 en sú er hér stendur er einmitt fulltrúi Íslands, annar tveggja, í stjórn þessa sjóðs. Að mínu mati er hann gríðarlega mikilvægur. Tilgangur hans er að styrkja menningarverkefni á Norðurlöndunum og norræn verkefni sem unnin eru í öðrum löndum. Mig langaði að nefna það núna að það er nýbúið að halda stjórnarfund í þessum sjóði þar sem úthlutað var til íslenskra verkefna. Það er athyglisvert að skoða greiðslur Íslendinga inn í sjóðinn og hvað við fáum til baka í verkefni sem við erum í forsvari fyrir. Auðvitað njóta önnur norræn ríki góðs af þeim líka ekki, bara við. Við greiðum kringum 1% inn í norræna samstarfið enda erum við gróft talið kringum 1% Norðurlandabúa. Það er ljóst að við fáum um 5% af styrkupphæðunum í verkefni sem Ísland er í forsvari fyrir. Þannig að við fáum hlutfallslega meira út úr sjóðnum heldur en við leggjum inn í hann, ef svo má að orði komast. Önnur lönd eru á pari, nema það hallar aðeins á Finnland og Svíþjóð í þessu eins og svo oft áður. Það er athyglisvert að draga það fram að Íslendingar hafa mjög mikið gott út úr norrænu samstarfi, ekki bara löggjafarsamstarfi grasrótarsamstarf og öðru heldur líka í formi beinna styrkja.

Í skýrslunni er líka fjallað um dómsmálasamstarf. Mig langaði að draga fram mjög gott samstarf varðandi björgunarmál á Norðurlöndunum. Það er annar samningur um björgunarþjónustu frá 1989 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar og við Íslendingar erum formlegur aðili að honum. Það er almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem fer með þetta samstarf í leitar- og björgunarmálum. Landhelgisgæslan er líka tengd þessu og ég tel að þetta sé alveg gríðarlega mikilvægt samstarf. Við fáum einnig norska efnahagssérfræðinga til að aðstoða okkur varðandi bankahrunið og njótum þar góðs af norrænni samvinnu.

Síðan eru tvö verkefni, Nordjobb og Snorraverkefni sem mér finnst mikilvægt að nefna. Það eru atvinnuskipti ungs fólks á Norðurlöndunum. Á síðasta sumri komu 53 ungmenni hingað til Íslands í vinnu og 90 ungir Íslendingar fóru til vinnu á Norðurlöndunum. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt verkefni og ég hef áhyggjur af því að íslensk ungmenni ferðast meira og minna yfir Norðurlöndin og jafnvel lengra og tapa kannski af Norðurlöndunum. Nordjobb-verkefnið og Snorraverkefnið sem tengist Kanada eru gríðarlega mikilvæg verkefni. Mig langar að spyrja hæstv. samstarfsráðherra út í norræna tungumálasamninginn. Hæstv. ráðherra minntist á hann. Mér skilst að það eigi að gera áætlanir varðandi það hvernig eigi að koma þessum tungumálasamningi „språkkonvensjonen“ í framkvæmd og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort við höfum gert slíka áætlun. Ég efast um að við höfum gert það. Ég veit að önnur norræn ríki eru að vandræðast með þetta. Mig langaði aðeins að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hún hafi upplýsingar um þetta.

Á bls. 53 er fjallaði um „Nordisk velferdsenter“ eins og það kallast. Norræna velferðarstofnunin er sett saman úr mörgum minni einingum. Ég ætla ekki að telja þær allar upp en ég veit að ráðherrann áttar sig á því hvert ég er að fara. Ég tel að með því að sameina þessar litlu stofnanir í eina stóra hafi verið stigið mjög jákvætt skref.

Ég vil líka gera að umtalsefni og spyrja hæstv. ráðherra út í annað mál, það er samstarf við Eystrasaltsríkin, Norðaustur-Rússland og hugsanlega Hvíta-Rússland. Norðurlöndin hafa sett upp upplýsingastofur á þessum stöðum, bæði í Eystrasaltsríkjunum og í Norðaustur-Rússlandi. Ekki fyrir löngu síðan samþykkti Norðurlandaráð í Stokkhólmi að beina því til samstarfsráðherranna að beita sér fyrir því að komið yrði upp upplýsingaskrifstofu í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Atkvæði voru greidd og var talsverður meiri hluti fyrir þessari niðurstöðu en maður hefur orðið var við ákveðna tregðu hjá ráðherrunum. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. samstarfsráðherra um hennar afstöðu í þessu hvort hæstv. samstarfsráðherra Íslands sé ekki tilbúin til að standa að því að liðka fyrir opnun upplýsingaskrifstofu í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Sú er hér stendur telur að það sé mikið gæfuspor og mundi vonandi aðstoða við lýðræðisþróun í Hvíta-Rússlandi þegar litið er til framtíðar.

Virðulegi forseti. Mig langar að nota síðustu mínúturnar í að lýsa því að um tíma hafði ég nokkrar áhyggjur af norrænu samstarfi. Umræðan sem fór fram um norrænt samstarf á Íslandi var öll í tengslum við bankahrunið, Icesave og þau mál. Hér blossaði upp umræða um að Norðurlöndin stæðu ekki nógu vel við bakið á okkur. Maður lítur svolítið á þessi mál í samhengi núna eftir að rannsóknarskýrslan kom út. Mér finnst mjög athyglisvert að lesa í rannsóknarskýrslunni hvernig Íslendingar virðast hafa komið fram við Norðurlöndin og reyndar fleiri ríki og valdið því að mikið vantraust skapaðist á íslensk stjórnvöld. Því er lýst í 19. kafla á bls. 275 í rannsóknarskýrslunni. Mig langar fyrst að vitna í bls. 276, þar er því lýst hvernig seðlabankastjórar Norðurlandanna; Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, að mig minnir sérstaklega Svíþjóðar, misstu mikið traust á íslenska Seðlabankanum og íslenskum stjórnvöldum. Mig langar að fá, með leyfi hæstv. forseta, að grípa aðeins ofan í þetta skjal og vitna beint í það:

„Í raun voru það einvörðungu seðlabankar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar sem með eftirgangsmunum fengust til að gera gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka Íslands. Það gerðist þó ekki fyrr en forsætisráðherra veitti loforð um að þrýsta á íslensku bankana að draga saman stærð efnahagsreikninga sinna með hliðsjón af tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En loforð forsætisráðherra Íslands í símtali var af hálfu hinna norrænu seðlabankastjóra ekki talið nægjanlegt heldur var krafist undirritaðrar yfirlýsingar þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar um ábyrga stefnu í ríkisfjármálum og um breytingar á Íbúðalánasjóði. Fyrirgreiðsla norrænu seðlabankanna var þannig bundin skilyrðum um að ríkisstjórn Íslands beitti sér fyrir ákveðnum pólitískum aðgerðum og athöfnum af hálfu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Ráðherrarnir undirrituðu yfirlýsinguna 15. maí 2008 ásamt bankastjórn Seðlabanka Íslands en hún var ekki birt opinberlega en lögð fram á ríkisstjórnarfundi. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því við skýrslutöku að yfirlýsingin hefði heldur ekki verið rædd í ríkisstjórn. Að framansögðu athuguðu virðist það hafa verið mat norrænna seðlabanka að íslensk yfirvöld hefðu ekki beitt sér af nægilegu afli við að draga úr stærð íslensku fjármálafyrirtækjanna, hefðu ekki haldið uppi nægilega ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum auk þess sem ekki hefði verið ráðist í breytingar á Íbúðalánasjóði sem taldar væru nauðsynlegar. Svo notuð séu orð, sem Davíð Oddsson eignar bankastjórum danska og norska Seðlabankans, höfðu íslensk stjórnvöld gert „allt of lítið og allt of hægt“ í því að minnka íslensku fjármálafyrirtækin. Ekki verður séð að bankastjórar norrænu seðlabankanna hafi borið mikið traust til þess að íslenska ríkisstjórnin mundi ráðast í þessi verkefni fyrst þess var sérstaklega krafist að fá loforð ráðherranna um nauðsynlegar umbætur skjalfest og undirrituð.“

Það þarf ekki að lesa mikið meira upp úr þessu. Það er margt í viðbót sem maður hefur ekki geð í sér að lesa en þetta sýnir svo ekki verður um villst að gríðarlega mikið vantraust hefur skapast á milli íslenska Seðlabankans og íslenskra stjórnvalda og norrænu seðlabankanna. Svo vitnað sé í lokaorð kaflans, virðulegur forseti, þá telur rannsóknarnefndin sem notar orðin „að íslensk stjórnvöld hafi verið orðin mjög einangruð að þessu leyti á alþjóðavettvangi.“ Það er ágætt að þingmenn hafi þetta í huga þegar þeir rifja upp hástemmdar yfirlýsingar um að norrænt samstarf skili sér ekki. Það er ákveðin ástæða fyrir því að menn voru á varðbergi á Norðurlöndunum og eftir á að hyggja hefur maður fullan skilning á því. Ég er ánægð með það að á sínum tíma hélt ég uppi miklum varnarorðum um neikvæða umræðu um norrænt samstarf sem mér fannst vera að skapast, því hún átti ekki rétt á sér. Norðurlöndin hafa staðið við bakið á okkur og við eigum að fagna því og vera þakklát fyrir það.