138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

norrænt samstarf 2009.

477. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skylt er skeggið hökunni, við ræðum áfram norrænt samstarf, að þessu sinni skýrslu um samstarfið í Norðurlandaráði á síðasta ári. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. samstarfsráðherra fyrir skýrslu hennar um samstarfið á þeim vettvangi á liðnu ári. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að öll áhersla á norrænt samstarf hefur aukist mjög og eflst eftir þau efnahagsáföll sem hér riðu yfir, enda fundum við í raun og sann hvert var að leita, bæði um bandamenn og stuðning og styrk í þeim hremmingum. Sömuleiðis drógu margir þær pólitísku ályktanir að við þyrftum að horfa til þeirra áherslna sem við áður lögðum, hinna norrænu áherslna í samfélagsuppbyggingu, í ríkari mæli en við gerðum á allra síðustu árunum í aðdraganda hrunsins.

Skýrsla Íslandsdeildarinnar er þingmál nr. 477 og hana finna þingmenn á þskj. 821. Ég ætla út af fyrir sig ekki að rekja mig í gegnum efni hennar. Í henni er einfaldlega greint frá starfsemi Íslandsdeildarinnar, Norðurlandaráðsins og nefnda ráðsins á liðnu ári. Ný Íslandsdeild var skipuð eftir alþingiskosningarnar fyrir ári og voru þá skipaðir í hana auk mín, fyrir hönd Samfylkingarinnar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þeir Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson, fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð Ásmundur Einar Daðason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og fyrir Framsóknarflokkinn hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Á árinu fór Ísland með formennsku í ráðherranefndinni en í árslok 2009 tók Ísland við formennsku. Sá sem hér stendur og er formaður Íslandsdeildarinnar var kjörinn forseti ráðsins á þingi þess í Stokkhólmi á árinu 2009. Þar lögðum við jafnframt fram formennskuáætlun okkar í ráðinu, þær áherslur sem Íslandsdeildin leggur á yfirstandandi ári í starfsemi ráðsins. Ráðið starfar eftir rammaáætlun til nokkurra ára og það land sem fer með forsæti í ráðinu leggur áherslu á ákveðin atriði í starfi sínu á því ári. Þar vil ég nefna nokkur atriði.

Þar er í fyrsta lagi lögð rík áhersla á öryggi borgara á Norðurlöndum út frá fjölmörgum sjónarhornum. Þar er kannski fyrst að nefna hin hefðbundnu sjónarmið, varnar- og öryggismálin, ekki síst á grundvelli Stoltenbergs-skýrslunnar. Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Norðmanna, vann geysigóða úttekt á stöðu þessara mála á Norðurlöndum, ekki síst á Norður-Atlantshafinu. Hann setti fram einar 13 tillögur um það hvernig auka mætti og efla samstarf norrænu ríkjanna í hinum hefðbundnu öryggismálum. Eitt af stóru verkefnunum á yfirstandandi ári er að ýta áfram þeim tillögum og fylgja þeim eftir þannig að þær verði ekki enn ein skýrslan heldur verði tillögurnar teknar til meðhöndlunar og komið til framkvæmda í þeim mæli sem raunsætt er og skynsamlegt. Þar er að finna tillögur sem snúast um allt frá hagkvæmu samstarfi um sendiráð í erlendum ríkjum og yfir í langtímastórpólitísk öryggismál eins og upplýsingaöflun á norðurslóðum og annað slíkt.

Í öðru lagi höfum við lagt áherslu á öryggismál hvað varðar skipulagða glæpastarfsemi á Norðurlöndum. Það sýnir sig að fólk á Norðurlöndunum lýsir í viðhorfskönnunum mestum áhuga á því að gætt sé að þeim þætti í samstarfinu, samstarfi gegn glæpastarfsemi sem hefur færst í vöxt í okkar heimshluta og við kynnst æ betur, skipulagðri glæpastarfsemi sem kallar á aðgerðir í hverju og einu landi en kallar líka á samstarf þvert á landamæri. Slík starfsemi nær oftar en ekki yfir landamæri og er fjölþjóðleg skipulögð starfsemi sem kallar á fjölþjóðlegt skipulegt samstarf til varnar.

Við höfum líka lagt áherslu á öryggismál frá óvenjulegu sjónarhorni sem er hið efnahagslega öryggi. Við höfum kynnst því á síðustu missirum að efnahagsmál eru þegar á reynir líka gríðarlega mikið öryggismál, sem og umhverfismálin. Loftslagsmálin hafa verið mjög fyrirferðarmikil í hinu norræna samstarfi á undanförnum árum, m.a. hafa Danir haft mikla forustu um starf í þeim efnum sem náði hápunkti á síðasta ári með ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Það er starf sem við fylgjum eftir á hinum norræna vettvangi og það er mikið öryggismál fyrir íbúa á norðurslóðum, ekki síst fyrir nágranna okkar á Grænlandi og í strandhéruðum við Norður-Atlantshaf.

Hafið er annað áhersluatriði Íslandsdeildarinnar í þessu samstarfi. Þar eiga Norðurlöndin mörg sameiginleg hagsmunamál, hafa náð ýmsu fram í úrbótum á Eystrasaltssvæðinu og margvísleg verkefni hafa verið unnin, m.a. í tengslum við Norður-Atlantshafið. Hér nefndi hæstv. samstarfsráðherra vákortið, en á vettvangi Norðurlandaráðs hefur líka verið samstarf um að hafa áhrif á stefnu Evrópusambandsins á Eystrasaltinu og núna á þá stefnumörkunarvinnu sem unnin er í fiskveiðimálum. Þetta á Norðurlandaráðið sameiginlegt með Vestnorræna ráðinu, það er ástæða til að nýta tækifærið nú við endurskoðun á fiskveiðistefnu Evrópusambandsins til að leggja inn í þá vinnu norræn sjónarmið, norræna reynslu og að tala fyrir norrænum hagsmunum. Unnið verður að ýmislegu starfi í því sambandi á yfirstandandi ári.

Norðurlandaráð þarf í ríkara mæli að láta til sín taka í hinni evrópsku stefnumörkun og þróa þannig starf sitt. Fjölmargar ákvarðanir sem varða Norðurlöndin og íbúa á Norðurlöndunum eru nú teknar í Brussel og þó að sum ríkjanna séu aðilar að Evrópusambandinu og önnur ekki og sumt fólk á Norðurlöndunum sé hlynnt Evrópusambandinu og annað ekki og að öll umræða þess vegna í hinu norræna samstarfi um Evrópusambandið geti verið viðkvæm breytir það ekki því að Brussel hefur áhrif á praktísk verkefni í okkar daglega lífi. Það er mikilvægt að við frá hinni norrænu hlið getum bæði tekið mið af og leitast við að hafa áhrif þar, t.d. skiptir miklu máli að við leitumst við að hafa sem mest samráð milli Norðurlandanna um það hvernig við innleiðum Evróputilskipanirnar í landsrétt hinna norrænu landa. Ef við gerum það mjög ólíkt eftir löndum getum við með því skapað nýjar landamærahindranir innan Norðurlandanna og ný vandamál fyrir fólk og fyrirtæki á Norðurlöndunum í samskiptum innan Norðurlandanna. Það hefur verið lykilatriði í hinu norræna samstarfi að fella niður landamærahindranir, hvort sem það er vegabréfaframvísun eða hvers kyns réttindi á milli landanna. Það er auðvitað mikilvægt verkefni fyrir Norðurlandaráð nú og á næstu árum að huga að þessum þætti, að innleiðing Evróputilskipana skapi ekki nýjar landamærahindranir á milli Norðurlandanna.

Sömuleiðis þurfum við að hafa auga á því í þessu norræna þingmannasamstarfi okkar með hvaða hætti við getum haft áhrif á nýja löggjöf í Evrópusambandinu og nýja stefnumörkun sem varðar okkur miklu, hvort sem það er stefnumörkun Evrópusambandsins um heimskautasvæðin, um norðurskautssvæðið, Eystrasaltið, nýja fiskveiðipólitík eða eins og það verkefni sem er á dagskrá Norðurlandaráðsins núna sem er ný neytendalöggjöf í Evrópu sem er á dagskrá í Evrópusambandinu. Neytendalöggjöf á Norðurlöndum er býsna þróuð og það skiptir okkur miklu máli að þeim sjónarmiðum sem við höfum haft uppi á Norðurlöndum í þeim efnum sé haldið til haga í þeirri umræðu sem fram fer á næstu missirum um neytendamál í Evrópu og mun að líkindum á endanum leiða til samevrópskrar löggjafar sem mun hafa áhrif á löggjöfina hjá okkur á Norðurlöndunum.

Auk þess að þakka hæstv. ráðherra þakka ég hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir orð hennar áðan. Ég held að þau orð sem hún hafði um neikvæða umræðu um norrænt samstarf á tímabili eigi sannarlega við rök að styðjast vegna þess að sú umræða var á köflum á býsna miklum villigötum. Staðreyndin er sú að þegar á reyndi og við fórum um heiminn í leit að neyðaraðstoð á erfiðum tímum í aðdraganda hrunsins voru það meira og minna Norðurlöndin ein sem voru tilbúin til að gera við okkur gjaldmiðlaskiptasamninga og styðja okkur í þeim erfiðleikum sem við vorum þá í. Þangað sóttum við líka mikilvægan bakstuðning og sérfræðiaðstoð þeirra landa sem höfðu farið í gegnum fjármálakreppur. Við sóttum þangað sérfræðinga úr fjármálaeftirlitum þeirra landa, við sóttum þangað m.a.s. seðlabankastjóra um tíma eins og kunnugt er, við sækjum þangað núna sérfræðinga í efnahagsbrotarannsóknum og -saksóknum og höfum getað leitað þangað um margvíslegan stuðning, m.a. fjármögnun á samstarfsáætlun okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þó að við hefðum stundum kosið að lengra hefði verið gengið eða eindregnari afstaða verið tekin með okkur, ekki síst á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og höfum rætt það og skipst mjög hreinskilnislega á skoðunum við félaga okkar í Norðurlandaráði, í þingflokkunum sem þar starfa, og lagt áherslu á mikilvægi þess að Norðurlöndin standi með Íslandi í þeim leiðangri öllum er auðvitað engum blöðum um það að fletta að á þessum tíma höfum við fyrst og síðast getað leitað til Norðurlandanna og fengið stuðning hjá þeim. Þau hafa skipt okkur gríðarlega miklu máli þegar við höfum unnið okkur með sem farsælustum hætti í gegnum þetta tímabil. Það vekur samt eðlilega spurningar um það sem ég held að við eigum að ræða í hinu norræna þingmannasamstarfi á næstu mánuðum og missirum, hvort ekki sé rétt að skoða að formgera slíkt samstarf á viðsjárverðum tímum í efnahagsmálum, hvort við höfum ekki lært það af þeim fellibyl sem gekk yfir í efnahagsmálum heimsins að svæði eins og Norðurlöndin hafa að sumu leyti ekki verið fyllilega viðbúin því sem yfir gekk, hvað megi af því læra og hvernig við megum búa okkur betur undir það þegar næst skellur yfir fárviðri í þessum efnum. Efnahagsleg áföll verða ekki bara einu sinni, þau koma aftur og aftur, kannski með áratugamillibili, kannski einnar aldar millibili en við vitum að þau koma aftur og það er mikilvægt að við lærum af þeim tíma það sem að baki er.

Að öðru leyti vísa ég, virðulegi forseti, í skýrsluna á þskj. 821.