138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala á HS Orku.

[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Heldur þykir mér orðin þreytt þessi ræða hjá hæstv. fjármálaráðherra um að hér sé allt fyrri ríkisstjórnum að kenna og hann standi ráðalaus frammi fyrir orðnum hlut. Ég minni hæstv. ráðherra á að hann hefur setið í ríkisstjórn í hálft annað ár. Sé raunin sú að hæstv. ráðherra vinni enn eftir stefnu fyrri ríkisstjórna og Halldór og Davíð einkavæði banka (Gripið fram í.) og selji orkufyrirtæki hægri og vinstri í gegnum hann (Gripið fram í.) hlýtur maður að spyrja sig til hvers í ósköpunum hæstv. ríkisstjórn sitji enn. Heldur hæstv. ráðherra því fram að hann hafi ekki völd til að breyta neinu eða er hann kannski að viðurkenna að hann vilji ekki breyta neinu?

Því ítreka ég fyrri spurningu mína: Af hverju hefur stjórnin ekki brugðist fyrr við fyrirliggjandi samningi um sölu á HS Orku? Af hverju var hætt við að endurskoða lög um (Forseti hringir.) erlenda fjárfestingu þegar núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra kom inn í ráðuneytið?