138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við afleiðingum eldgosa.

[15:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra ákaflega skýr svör. Það er ákaflega mikilvægt að það heyrist reglulega úr þessum stól að það sé tryggt að ríkisvaldið standi við bakið á því fólki sem berst nú við náttúruhamfarirnar og náttúruöflin. Það hefur verið rætt að einstakar ríkisstofnanir, félagasamtök, sveitarfélögin og einnig stofnanir á vegum sveitarfélaga og sem þarna eru — þau eru kannski ekki stór eða burðug mörg hver — eiga í erfiðleikum með að taka allar þessar fjárskuldbindingar á sig sem óhjákvæmilega hafa orðið til. Ég veit að það hefur verið leitað til ríkisvaldsins varðandi þær og væri áhugavert að heyra hvort ríkisvaldið hafi orðið við óskum um að greiða einhvern þann kostnað.

Síðan er staðreyndin því miður sú að þetta gos virðist vera að ágerast eða alla vega að halda áfram og enginn veit hversu lengi. (Forseti hringir.) Þess vegna ætla ég að ítreka þá tillögu til ríkisstjórnarinnar að hún fari að huga að því að endurskoða lög um Viðlagatryggingu eða að setja á stofn sjóð við hliðina á þeim sjóði þar sem við vitum aldrei í þessu landi hvenær næstu náttúruhamfarir ganga yfir.