138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og kom fram í framsögu minni tek ég undir það að þessar breytingar eru margar til bóta, bæði frumvarpið sem kom frá ráðuneytinu og síðan þær breytingartillögur sem koma frá meiri hluta viðskiptanefndar. Við hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leggjum síðan fram fjórar aðrar breytingartillögur sem við teljum að gætu bætt málið enn frekar og leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum. Eins og ég tók fram í framsögu minni er ég að langmestu leyti sammála þeim breytingum sem verið er að leggja til í frumvarpinu og frá meiri hlutanum. Ég er hins vegar mjög ósátt við bann sem verið er að setja varðandi rekstur gagnkvæmra vátryggingafélaga. Ég tel þetta röng skilaboð frá Alþingi, að við séum ekki að hlusta á það sem komið hefur fram í skýrslu rannsóknarnefndar. Ég tel að við höfum ekki hlustað á athugasemdir frá hópi sem var skipaður til að vinna úr athugasemdum rannsóknarnefndarinnar. Við erum heldur ekki að gefa skilaboð um það hvers konar efnahagslíf við viljum sjá fyrir okkur.

Það hafa líka komið fram ábendingar frá Samkeppniseftirlitinu um það hvernig við gætum bætt samkeppni á vátryggingamarkaði. Öll þessi atriði finnst mér skorta í frumvarpinu og þess vegna leggur 1. minni hluti fram þetta nýja ákvæði til bráðabirgða þar sem farið er fram á að þessi vinna verði unnin. Ég held að hv. þingmaður og ég gerum okkur ágætlega grein fyrir vanmætti þingsins að fara í þessa vinnu. Þetta er eitthvað sem ráðuneytið verður að taka að sér og jafnvel, eins og við höfum séð líka, að leita út fyrir ráðuneytið til að koma með skýra (Forseti hringir.) stefnumörkun um það hvers konar vátryggingamarkað við viljum byggja upp til framtíðar.