138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum annað stórmálið í röð, vorum með vátryggingafrumvarpið í gær og nú ræðum við frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það áðan erum við í rauninni að ræða viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hruninu. Reyndar maldaði hv. formaður viðskiptanefndar aðeins í móinn yfir þeirri orðnotkun hv. þm. Bjarna Benediktssonar þegar hún sagði að þetta væri frumvarp um hertar reglur. Mátti á henni skilja að þá væri verið að setja þær í einhverju tómarúmi. Það er einmitt það sem helst má gagnrýna við þetta frumvarp þó að ég geti tekið undir margt af því sem hér hefur komið fram um að frumvarpið hafi skánað. Það eru fjölmargar breytingartillögur um það og það hefur verið tekið tillit til sjónarmiða okkar í Sjálfstæðisflokknum um ýmis atriði, en mér finnst frumvarpið samt í ákveðnu tómarúmi. Eins og ég sagði í ræðu minni um vátryggingafrumvarpið vantar lærdóminn í þetta mál. Hann vantar og, svo ég endurtaki aftur orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar, það vantar viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hruninu.

Ég er ekki viss um að þegar meiri hluti þingsins er búinn að lögfesta þetta, sem ég óttast að verði gert innan fárra daga eða vikna, verðum við búin að koma í veg fyrir að hér verði vandræði í fjármálakerfinu. Það sem meira er, ég óttast og ræddi það í ræðu minni í gær að með því að setja þetta svona fram, klára þetta á þessum tímapunkti, þegar matinu á rannsóknarskýrslunni og vinnu úti í heimi að sömu verkefnum og í löndunum í kringum okkur er ólokið, sé þetta bara til að klára einhvern „tékklista“ hjá ríkisstjórninni. Þegar ríkisstjórnin verður gagnrýnd — sem hún verður, get ég lofað ykkur — fyrir aðgerðaleysi á ýmsum sviðum mun hún segja: Nei, nei, hér er ekki aðgerðaleysi. Við erum búin að herða reglur á fjármálamarkaði þannig að við erum búin að koma í veg fyrir að svona mistök geti orðið aftur. Það er mikil hætta í því fólgin að mínu mati vegna þess að þá erum við að skapa okkur falskt öryggi, við erum að skapa okkur þá tiltrú að með því að herða reglur og stoppa í einhver göt komum við í veg fyrir að þessir hlutir geti gerst upp á nýtt.

En erum við búin að skoða þetta alveg ofan í kjölinn? Ég segi nei, það er enn þá margt sem við eigum eftir að fara í gegnum. Íslenskt samfélag er í skrýtinni stöðu. Við sjáum það á stjórnmálunum, við sjáum uppgang nýrra framboða sem byrjuðu sem grínframboð og eru núna komin með rífandi fylgi í skoðanakönnunum. Það er ákveðin hjarðhegðun í gangi í samfélaginu og pendúllinn sveiflast frá einum öfgum til annarra. Hér græddu allir á tá og fingri fyrir hrun. Allir, og ég undanskil ekki sjálfa mig, tóku þátt í stemningunni. Hér var allt á blússandi siglingu og við áttuðum okkur ekki á því að undirstaðan undir vexti bankanna og vexti þessa kerfis var ekki nógu sterk. Og hjörðin elti þetta með öllum þeim afleiðingum sem við þekkjum.

En hvert erum við að fara núna? Nú hleypur hjörðin í hina áttina. Nú er hjörðin að segja: Við treystum engum, við þurfum að herða reglur, við þurfum að skerpa á þessu, skerpa á hinu og það er gert sundurlaust og án samhengis þannig að ég óttast að nákvæmlega það sama gerist, að við munum á einhverjum tímapunkti finna að undirstaðan undir þetta reynist jafnótraust og áður. Það er ekki gott.

Hér hefur verið farið yfir það að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ákvað strax eftir hrun, í nóvember 2008, að bregðast við til þess einmitt að læra af þessu og fékk reyndan erlendan bankaeftirlitsmann til að gera tillögur og skoða hvað fór úrskeiðis og hvernig við mættum læra af því. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt skref. Kaarlo Jännäri var falið að meta regluverk, skoða ýmis atriði, t.d. lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar áhættuskuldbindingar, krosseignatengsl og fleiri atriði sem við vitum að voru hér í ólagi. Síðan gerði nefndin tillögur sem þetta frumvarp sem átti að verða viðbragð við hruninu, en þá segir hv. þm. Lilja Mósesdóttir að það sé bara verið að herða reglur. Hún sagði reyndar í umræðum um vátryggingamálið að efnahags- og viðskiptaráðuneytið væri upptekið við að herða reglur sem mér fannst mjög óheppilegt vegna þess að mér finnst að efnahags- og viðskiptaráðuneytið eigi að vera upptekið við það að gera nákvæmlega það sem nefnd Kaarlos Jännäris gerði, fara eftir tillögum til að athuga í heildarsamhengi hlutanna hvað fór úrskeiðis. Þetta finnst mér vera merki um hjarðhegðun.

Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði áðan um einkavæðingu bankanna og þann lærdóm sem við höfum dregið af því að það voru mistök við einkavæðingu bankanna að tryggja ekki dreifða eignaraðild að þeim. Hann fór vel yfir það að við núverandi einkavæðingu bankanna vitum við ekkert hverjir eru kröfuhafar í bönkunum. Hér er verið að setja inn breytingartillögu sem á að gefa okkur tæki til að upplýsa um það og ég fagna því. Þetta hefur mikið verið rætt í nefndinni en það er samt með ólíkindum að við horfum upp á þetta með þeim hætti að okkur, fulltrúum almennings á Alþingi, sé meinað að skoða þessa kröfuhafalista. Reyndar getum við fengið þá. Mér hafa verið boðnir þessir listar, ég gæti skoðað þá, en það er ákveðið prinsipp hjá mér að ég vil fá að skoða þá eftir réttum leiðum. Mér finnst sjálfsagt að viðskiptanefnd Alþingis verði heimilað að fara yfir þessa lista.

Mér er sagt að það séu 28.000 kröfuhafar í Arion banka. Ég fékk þá tölu frá skilanefnd Arions banka. 22. janúar var búið að fara yfir einar 16.000 kröfur og mér er algjörlega fyrirmunað að skilja af hverju ekki má þá upplýsa um þessa 16.000. Jafnvel þó að við vitum ekki heildstætt hlutfall er hægt að gera þetta þannig úr garði að það sé hægt að setja þetta í samhengi.

Gott og vel, þetta tengist þessu. Við ræðum mikið um skort á heildarsýn og það kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta viðskiptanefndar, þeirra hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar, að það vanti heildarsýn á það hvernig fjármálamarkað við viljum sjá. Það skortir á pólitísku stefnumótunina. Rétt eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan er gott að við eigum þetta samtal hér. Það er ágætt. Við höfum svo sem átt þetta samtal í viðskiptanefnd en þess sést ekki stað í frumvarpinu. Það skortir á að heildarsýnin komi fram í þessum lagabreytingum, nákvæmlega eins og það skorti á alla heildarsýn þegar við fórum í fyrrasumar yfir málefni sparisjóðanna. Þá töluðum við um þetta sama. Þá töluðum við um að ekkert lægi fyrir um hvernig sparisjóðakerfi stjórnvöld vildu sjá. Hefði ekki verið skynsamlegt að eyða svolitlum tíma í þá stefnumörkun og komast þá hjá því sem við höfum orðið vitni að síðan, einmitt því að við höfum núna sparisjóðakerfi þar sem ákvarðanir hafa verið teknar handahófskennt um það hvernig ætti að meta og meðhöndla hvern og einn sparisjóð. Við sjáum að það fer næstum eftir dagsforminu hvernig eigi að haga málum þessara sjóða. Það er engin stefnumótun og engin heildarsýn. Mér finnst það ábyrgðarhluti okkar sem stjórmálamanna sem erum harðlega gagnrýnd í rannsóknarskýrslunni fyrir að sinna ekki því hlutverki sem okkur er ætlað, að vanda til verka við mikilvæga lagasetningu. Ég get ekki með góðri samvisku fallist á að þetta sé nægilega vel unnið. Ég er ekki að kasta rýrð á varaformann hv. viðskiptanefndar sem situr hér. Hann er búinn að reyna sitt. Hv. formaður nefndarinnar gaf þessu ágætistíma en við höfum verið föst í einhverjum atriðum. Svo ég nefni það einu sinni enn — ég tek það sérstaklega fram að ég á engra beinna hagsmuna að gæta í endurskoðunarstéttinni — þetta atriði um að við skulum herða reglur um endurskoðendur meira en gerist annars staðar kemur til „af því bara“. „Af því bara“ vegna þess að hér varð hrun. Og vissulega, jú, hér varð hrun og við skulum herða allar reglur þar sem við á en við verðum að gæta þess að gera þetta þannig að það sé einhver bragur á og einhver vissa fyrir því að þetta skili árangri.

Eitt af því sem Kaarlo Jännäri nefnir í ábendingum sínum um atriði sem betur mega fara í lagaumhverfinu er innstæðutryggingarkerfið. Ég hefði haldið að við gætum ekki afgreitt svona löggjöf án þess að vera búin að fara í gegnum spurninguna um innstæðutryggingarnar og ég hef líka haldið því fram, og sannfærðist um það þegar við fjölluðum um það mál fyrir jól, að við værum ekki komin á þann stað að fara að gera einhverjar breytingar þar á akkúrat núna án þess að fylgjast með því hvað er að gerast í Evrópu og löndunum sem við berum okkur saman við. Við hljótum að gera nákvæmlega það sem aðrar þjóðir eru að gera, við hljótum að þurfa að fara vel yfir þessi mál öllsömul og passa upp á að okkar kerfi sé í samræmi við það og taki mið af því sem er að gerast annars staðar en einnig að við förum í gegnum það og sjáum hvað gerir okkur frábrugðin. Það er eitt af því sem haldið hefur verið fram, að við höfum innleitt Evróputilskipanir gagnrýnislaust, að þess vegna hafi farið eins og fór, en ég get ekki séð að þau vinnubrögð að búa til einhvern séríslenskan veruleika með bútasaumi og handahófskenndum leiðréttingum sé vænlegri til árangurs.

Eitt sem er verið að gera í þessu frumvarpi er að Fjármálaeftirlitið fær auknar heimildir. Það má alveg færa fyrir því rök að Fjármálaeftirlitið hafi hvorki haft næg tæki né nægar heimildir til að gera ákveðna hluti í aðdraganda hrunsins. Það getur vel verið. Annað sem hefur verið gagnrýnt af m.a. rannsóknarskýrslu og þeim sem fjallað hafa um okkar mál eftir hrun er það hversu veikt Fjármálaeftirlitið var sem stofnun. Meðal annarra hefur núverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins gagnrýnt Fjármálaeftirlitið fyrir það hversu veikt það var og ómögulegt en hann gerir sér kannski ekki alveg grein fyrir því að með því er hann að sjálfsögðu að gagnrýna það starfsfólk sem er að vinna fyrir hann í dag vegna þess að ekki er búið að skipta mörgum þar út. Reyndar eru forstjórinn og stjórnin farin þannig að hann hlýtur að álíta að hann sé mikill kraftaverkamaður ef allt á að batna bara með tilkomu hans. Það er nú önnur saga. Ég spurði hann m.a. í störfum viðskiptanefndar hvort hann væri hræddur um að þetta skapaði honum og stofnun hans falskt öryggi. Hann tók undir það, bar að vísu blak af stofnun sinni, sagði að verið væri að auka upplýsingakerfi og það væri komin einhver ný lögfræðideild, en hann og fleiri tóku mjög undir þær áhyggjur að bæði Fjármálaeftirlitið og aðrar stofnanir ættu í og muni koma til með að eiga í verulegum erfiðleikum með að manna stofnunina og fá til þess hæfasta fólkið. Við hljótum að gera þá kröfu núna með allan þann lærdóm sem við getum dregið að við fáum hæfasta fólkið sem mögulegt er til að hafa eftirlit með fjármálakerfinu. Ekki viljum við annað hrun. En erum við að því? Nei, vegna þess að Fjármálaeftirlitið getur ekki keppt við skilanefndir, getur ekki keppt við banka, getur ekki keppt við lögfræðistofur um hæfasta starfsfólkið vegna þess að ríkisstjórnin er búin að setja þak á laun. Það má enginn hafa hærri laun en hæstv. forsætisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, ef það skyldi hafa farið fram hjá þér. Það mun standa stofnunum eins og Fjármálaeftirlitinu verulega fyrir þrifum nema þessar stofnanir bregði á það ráð að setja greiðslur undir borðið, fara í alls konar feluleik og kalla það bílastyrk, námskeiðsgjald, líkamsræktarkort og allt þetta sem ég trúi ekki að sé ætlun ríkisstjórnarinnar. Þá mun þetta fólk, það fólk sem við viljum að verði á vaktinni við að vakta fjármálakerfið okkar — vegna þess að við viljum ekki annað hrun — ekki fara að vinna hjá Fjármálaeftirlitinu. Ég leyfi mér að fullyrða það. Ég er ekki að gera lítið úr því ágæta starfsfólki sem vinnur þarna, alls ekki, en álít þetta stóran galla. Þetta frumvarp svarar því ekki hvernig Fjármálaeftirlitið verður að betri stofnun. Það á að fá fullt af auknum heimildum, það vantar ekkert upp á það. Það á að fá heimildir til að skoða hluti og fara inn í fyrirtæki, heimildir til að bregðast við og setja reglur um það hvað eru heiðarlegir og skynsamlegir viðskiptahættir. Já, já, það er eflaust mjög fínt en ekkert í þessu frumvarpi segir hvernig Fjármálaeftirlitinu muni takast að uppfylla öll þessi góðu markmið og beita öllum þessum heimildum nema ef vera skyldi að hinn ágæti forstjóri Fjármálaeftirlitsins sé sá kraftaverkamaður sem gefið er í skyn af sumum.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er að renna út. Ég tel mjög mikilvægt að nefndin fari vel yfir þetta mál á milli umræðna. Best væri að málið yrði lagt til hliðar, sumarið yrði tekið í að fara yfir þessi atriði, fara yfir rannsóknarskýrsluna, fara yfir þau mál sem virkilega standa út af og passa upp á að hjörðin (Forseti hringir.) hlaupi ekki öll í öfuga átt eina ferðina enn.