138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki sem hefur verið til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd. Umræðurnar hafa verið mjög gagnmerkar og athyglisverðar, ekki síst vegna fjarveru þeirra stjórnarþingmanna sem ég taldi fyrir fram að mundu hafa mikinn áhuga á að ræða þetta stóra frumvarp sem varðar að mínu áliti það hvernig eigi að byggja upp fjármálafyrirtækin til framtíðar eftir hrunið.

Hér fóru fram kosningar fyrir rétt rúmu ári. Á þingi tóku sæti 27 nýir þingmenn sem ég tel að allir hafi boðið sig fram á þessum erfiðu og miklu umrótatímum í Íslandssögunni til þess að taka til, hafa skoðun á því hvernig Ísland við viljum byggja upp til framtíðar. Þess vegna er ég hálfundrandi yfir því að umræðan sé nokkuð einsleit hér í dag. Vissulega hefur mjög gott fólk tekið til máls, frábærar ræður verið fluttar að mörgu leyti, en ég hélt einhvern veginn að fleiri hefðu skoðun á þessum málaflokki.

Þegar menn fara í endurskoðun á fjármálakerfinu, því umhverfi sem fjármálafyrirtækjum á að vera búið og hvernig umgjörð þeirra á að fara fram, er mjög mikilvægt að horft sé á það á heildstæðan hátt og einhver stefna mörkuð af hálfu stjórnvalda um það hvað sé verið að gera og hvert skuli stefnt.

Því miður tel ég að með þessu frumvarpi sé ekki sýnt fram á neina slíka stefnumótun. Þá tel ég fátt sem við höfum lært af hruninu ef það er ekki það að reyna að hafa skýra sýn til framtíðar og hugsa málin á heildstæðum grunni þannig að öll þjóðin og öll fyrirtæki sem hér starfa viti hvert skuli stefnt. Það er eitt af því mikilvægasta í framtíðinni, skýr stefna, skýr lagarammi, ekki síst utan um fjármálafyrirtækin sem við ætlum okkur vissulega, a.m.k. að því er ég tel, að byggja upp af fullum krafti þannig að þau geti tekist á við hlutverk sitt í hinu nýja Íslandi og við endurreisn efnahagskerfisins.

Frú forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ákvað í nóvember 2008 að fá þennan reynda bankaeftirlitsmann til að leggja mat á það hvaða breytingar ætti að gera á lagaumhverfi og -framkvæmd Fjármálaeftirlitsins á Íslandi. Það var mjög góð ákvörðun, að því er ég tel. Skýrslan er gagnmerk og af henni er hægt að læra margt og byggja á henni þann grunn sem ég tel vert að klára að gera á Íslandi. Þá verður líka að horfa á málið í heild sinni.

Það liggur við að maður fái á tilfinninguna að þetta frumvarp sé lagt fram til þess eingöngu að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Það er ekki skýr stefnumótun í mínum huga og er hálfgerður málamyndagerningur, að því er mér sýnist, með það að augnamiði að ríkisstjórnin geti sagt að hún hafi víst brugðist við bankahruninu í þessum málaflokki.

Maður verður fyrir vonbrigðum og hálfundrandi yfir metnaðarleysinu.

Ég taldi að þegar sumir stjórnmálamenn hér á Íslandi töluðu fyrir því í janúar á síðasta ári að það yrði að boða til kosninga, breyta hér öllu og taka hlutina til algjörrar endurskoðunar mundu þess sjást einhver merki í verkum þeirra flokka sem náðu völdum að afloknum alþingiskosningum fyrir rétt rúmu ári. Það er ekki að sjá, heldur eru eintómar afsakanir um að ekki sé hægt að gera hlutina eins og við heyrðum undir liðnum um störf þingsins í dag þegar talað var um orkugeirann. Stjórnarþingmenn láta hér eins og þeir kannist ekki við að þeir hafi haldið um stjórnartaumana í rúmlega eitt og hálft ár. Það hefur aldeilis verið tími til að endurskoða, leggja fram heildstæð lagafrumvörp og skýra stefnumótun í ýmsum málaflokkum. Það er einfaldlega ekki boðlegt íslensku þjóðinni, frú forseti, að standa svo í þessum ræðustól eins og margítrekað hefur verið gert undanfarna daga, ekki síst birtist það hér fyrr í dag, og halda því fram að menn geti engu breytt.

Ég man þá tíð áður en ég kom inn á þing að hér átti allt að breytast til batnaðar ef bara einum manni yrði skipt út úr Seðlabankanum. Hverju skilaði það? Og hvað gerir það að verkum að menn geta ekki áttað sig á því, þeir sem sitja í ríkisstjórnarflokkunum, að þeir stjórna? Er það kannski bara erfiðara en menn gerðu sér grein fyrir? Og var þetta kannski ekki alfarið manninum í Seðlabankanum að kenna?

Ég átta mig ekki alveg á þeirri umræðu sem hefur kristallast hérna undanfarna daga en ég vonast til að menn láti af henni og fari hins vegar að sýna okkur það, landsmönnum öllum, hver stefnan raunverulega er, hugmyndirnar sem lágu að baki því að umbylta hér fyrri ríkisstjórn. Var einhver hugmyndafræði þar að baki? Og ef svo er, sem ég taldi að væri, ættum við að sjá þess meiri merki í þeim frumvörpum sem eru lögð fram í þinginu.

Frú forseti. Ég rifjaði upp um daginn að eitt af mínum fyrstu verkum í þinginu hefði verið að spyrjast fyrir um sparisjóðina og hvað þessir stjórnarflokkar hefðu upp í erminni sem stefnu sína varðandi framtíð sparisjóðakerfisins á Íslandi. Það var í júní í fyrra. Ég hafði t.d. ákveðnar áhyggjur af sparisjóðnum í mínu kjördæmi sem hafði haft samband við þingmanninn sinn og bar ákveðinn ugg í brjósti um það í hvað umhverfi hans stefndi. Á þeim tíma var lagt fram frumvarp um umhverfi sparisjóðanna sem var reynt að fá hér í gegn með miklum hraða.

Lítið breyttist á mörgum mánuðum og nú er staðan enn sú að menn átta sig ekki alveg á því hver heildarsýnin er og stefnumótunin. Ár síðan, frú forseti, og það liggur við að nýr þingmaður sem hefur verið hérna í heilt ár geti rifjað upp þær spurningar sem hann lagði fram fyrir réttu ári og spurt þeirra aftur. Það er það lítið sem hefur gerst. Þetta veldur mér áhyggjum og þess vegna spyr ég hina 26 nýju þingmenn sem tóku hér sæti fyrir ári: Hvað hafa þeir haft til málanna að leggja? Hvað hefur breyst? Hvers vegna taka þeir þingmenn ekki þátt í þessari umræðu um þetta grundvallarmál — sem ætti að vera grundvallarmál — um stefnumótun?

Frú forseti. Það eru fáir í salnum til að hlýða á mál mitt nema mínir ágætu samflokksfélagar og svo hv. þm. Lilja Mósesdóttir sem er jafnframt formaður viðskiptanefndar. Kann ég henni miklar þakkir fyrir að hlusta á ræðu mína.

Í þessu frumvarpi eru þó lagðar til talsvert miklar breytingar á hlutverki Fjármálaeftirlitsins. Það er algjörlega ljóst að miklar breytingar hafa orðið á þeirri stofnun á undanförnum árum og auknir fjármunir hafa verið lagðir inn í hana. Það skref sem er stigið hér með þessu frumvarpi er ekki endanlegt. Vissulega er umhverfið flókið og stofnunin hefur búið við miklar breytingar. Það er erfitt að halda í góðan mannauð þegar umhverfið er hvikult. Þess vegna ber að vanda sig þegar menn fara í grundvallarbreytingar á stofnunum sem þessari. Þess vegna er betra að hafa einhverja heildarsýn á það hvert skuli stefnt, t.d. varðandi þá stofnun, áður en lagðar eru fram breytingar sem þessar. Það skiptir einfaldlega máli upp á það hvernig starfsmenn sjá umhverfi sitt og hvernig forustumenn og stjórnendur þeirrar stofnunar geta gripið til ráðstafana til að undirbúa jarðveginn fyrir frekari breytingar.

Ef við ætlum að láta íslenska stjórnkerfið endalaust fá nýtt skipurit, ný frumvörp sem koma fram í einhverjum smáskömmtum í gegnum væntanlega það kjörtímabil sem við störfum nú í, er ég hrædd um að ansi mikið af fjármunum fari í súginn, fari einfaldlega í kostnað vegna breytinganna sjálfra í staðinn fyrir að fara í að taka á þeim hlutum sem vissulega er brýnt að gera í kjölfar efnahagshrunsins.

Af þessu hef ég áhyggjur. Engu að síður er athyglisvert að lesa umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Hér segir, með fyrir forseta:

„Hugsanlega mun því eftirlitsverkefnum stofnunarinnar fjölga sem kann að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Ekki liggja þó fyrir áætlanir um aukið umfang vegna slíkra verkefna á þessu stigi.“

Það er athyglisvert að stjórnvöld hafi ekki gert sér betur grein fyrir þessum breytingum á Fjármálaeftirlitinu áður en þau lögðu af stað. Það vekur mann til umhugsunar um það enn og aftur hvort þarna hafi verið farið aðeins of hratt.

Ég veit að í viðskiptanefnd situr gott fólk sem hefur verið mjög duglegt á þessu þingi. Ég átti sjálf kost á því að sitja nokkra fundi í fyrrasumar í þeirri nefnd þegar henni var stýrt af núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur. Ég þekki það að menn leggja sig þar mikið fram, enda verkefnin stór, en það að taka þetta frumvarp og lagfæra það, þá væntanlega fyrir þinglok sem eru samkvæmt nýjustu breytingum á starfsáætlun Alþingis 15. júní, tel ég gríðarlega mikið verk. Þótt ég beri fullt traust til nefndarmanna er ég ekki viss um að það takist að klára þetta svo vel sé þannig að tekið sé á grundvallarþáttum og gengið aðeins lengra en þessi smáskref sem hér eru stigin.

Frú forseti. Það eru margir góðir punktar sem enn er ósvarað úr skýrslu reynda bankaeftirlitsmannsins finnska sem hefur verið vitnað svo gríðarlega mikið til hér í dag. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort fleiri af þeim atriðum verða tekin inn í frumvarpið.

Það hefur verið talsvert rætt um að menn hafa áhyggjur af þeirri staðreynd við þessar öru breytingar, t.d. á stofnun eins og Fjármálaeftirlitinu, hvort menn hrekist þaðan úr starfi. Hér hefur verið sett, eins og rætt var áðan, hámark á laun manna á Íslandi sem starfa hjá hinu opinbera. Ég hef áður komið að því í umræðu í þinginu og ítreka áhyggjur mínar af því hvert við stefnum þar. Við eigum hér mikinn mannauð og verðum að gæta okkar á að skapa þannig skilyrði að fólk velji áfram að búa á Íslandi. Ég tel að við höfum öll tækifæri til þess ef við náum að halda rétt á spilunum. Það er bara svo afskaplega mikilvægt að menn hafi heildarsýn og að þeir sem bjóða sig fram til forustu í íslenskum stjórnmálum leggi sig alla fram um að útskýra, m.a. fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, hvert þeir eru að fara þannig að það sé ljóst að það sé unnið eftir einhverju plani. Ekki síður er brýnt að íslenskir borgarar sjái að það sé stefnt með þjóðina í einhverja átt og að t.d. í þessu tilfelli sé stefnt að einhverjum ákveðnum heildarpakka á heildargrunni gagnvart umhverfi fjármálafyrirtækjanna.

Ég skora á þá hv. þingmenn sem hér sitja og hlýða á mál mitt að hafa þetta í huga þegar málið er rætt í viðskiptanefnd. Það eru þá aðallega hv. þingmenn stjórnarflokkanna sem ættu að knýja á um að þeirra ágætu félagar sem sitja við ríkisstjórnarborðið gefi þá pólitíska leiðsögn. Það hlýtur að vera þeirra hlutverk og það hlýtur að vera hlutverk þeirra þingmanna sem sitja í nefndinni fyrir hönd þeirra flokka að sama skapi að kalla eftir slíkri leiðsögn liggi hún ekki fyrir.

Frú forseti. Mig langar að lokum enn og aftur að ítreka að ég tel að þeir 27 nýju þingmenn sem tóku hér sæti í fyrravor séu enn brennandi í andanum yfir því að takast á við það stóra verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Ég trúi því. Ég fellst ekki á það þótt einhverjir séu farnir að halda því fram að menn bogni og brotni við það að sitja í þessum þingsal í nokkra mánuði. Verkefnið er stórt en allir sem tóku að sér að koma hérna inn, bjóða sig fram, vissu að þetta yrði ekki auðvelt.

Að mínu viti þarf að virkja krafta allra, hvort sem þeir sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu, en engu að síður er aldrei hægt að komast fram hjá því að þeir sem sitja í ríkisstjórninni gefi einhverja leiðsögn. Eftir því þarf að kalla og síðan þarf að samnýta kraftana, nota þær góðu hugmyndir og sérstaklega vinna eftir þeim ágætu hugmyndum sem komu fram í skýrslunni góðu sem kom út núna í apríl og vinna á þeim grunni að því að sýna fram á heildstæða stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki.