138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

strandveiðar.

[12:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er nýtt og gott að hv. þingmaður hafi mikinn áhuga á strandveiðunum. Ég veit einmitt að flokkur hans var ekki hrifinn af því að þessu væri komið á. Tilgangur strandveiðanna er tvíþættur, að opna leið fyrir þá sem uppfylla skilyrði hvað varðar báta sína og að gera út til að mega fara á sjó undir mjög afmörkuðum skilyrðum og fénýta sér þann afla án þess að hafa keypt til þess sérstakar aflaheimildir. Þetta er ekki hugsað sem heilsársatvinnuveiðar, heldur í þessum tilgangi. Hitt er síðan líka að þetta deilist á byggðir þannig að hægt sé að sækja aflann frá tilgreindum svæðum.

Því var lýst yfir þegar frumvarpið var lagt fram að fylgt yrði svipuðum reglum og var gert á síðasta ári varðandi skiptingu á svæðum. Að vísu var gerð örlítil breyting þannig að Húnaflóinn er settur með Miðnorðurlandi en að öðru leyti er sama skipting höfð á. Því var deilt niður á mánuði eins og hv. þingmaður minntist á og það sem er ónýtt af fyrsta mánuði fer þá yfir á þann næsta. Það er alveg rétt að ef það væru ónýttar heimildir á einu svæði þegar kemur fram á sumarið getur ráðherra í sjálfu sér fært þær inn á önnur svæði en meginmarkmið þessa frumvarps er að allir (Forseti hringir.) hringinn í kringum landið hafi möguleika til að sækja sjó á þessum grundvelli.