138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[12:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Staða atvinnumála á Íslandi er grafalvarleg. Við Íslendingar erum ekki vön atvinnuleysi og við eigum ekki og við ætlum ekki að venjast þeirri óáran sem drepur niður þrótt manna, dugnað og sjálfsbjargarviðleitni. Við eigum öll að taka höndum saman í þessum sal og hafna atvinnuleysi, það er einfaldlega óásættanlegt.

Þetta viðhorf kom skýrt fram í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum þar sem atvinnumálin voru sett á oddinn á fjölmörgum stöðum um land allt. Það var beinlínis kosið um atvinnumál úti um allt land. Til að endurreisa þjóðarhag þarf að afla tekna, skapa störf og minnka skuldir. Til að svo megi verða þarf að vera eftirsóknarvert fyrir innlenda og erlenda aðila að standa í atvinnurekstri og fjárfestingum.

Stundum virðist ríkisstjórnin skilja þetta. Þegar ráðherrar halda ræður á tyllidögum er talað um mikilvægi þess að auka erlenda fjárfestingu, það eru haldnir margir fundir þar sem farið er yfir þetta, frumvörp lögð fram á Alþingi og nokkrar áætlanir gerðar. Svo stoppar allt og innbyrðis ágreiningur og pólitísk kredda í ríkisstjórninni stendur framþróun fyrir þrifum.

Þolinmæði aðila vinnumarkaðarins gagnvart ríkisstjórninni er á þrotum eins og glögglega sést á nýlegum yfirlýsingum þeirra þar sem hörð gagnrýni er sett fram. Fyrirheit stjórnvalda hafa verið svikin og óvissa í atvinnulífinu hefur verið mögnuð upp frekar en eytt. Stóru verkefnin sem skipta höfuðmáli hafa ekki komist í framkvæmd, svo notuð séu orð framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Staðreyndirnar tala sínu máli. Í dag eru 15.748 án atvinnu, um 9%. Þegar ríkisstjórnin tók við 1. febrúar 2009, fyrir 485 dögum, voru 12.407 án atvinnu. Þeim hefur því fjölgað um 3.341 þrátt fyrir að gera hafi átt átak og skapa 6.000 störf, þar á meðal 2.000 í orkufrekum iðnaði. Hver trúir því?

Hvernig bregst ríkisstjórnin við þessari gagnrýni aðila vinnumarkaðarins? Fjármálaráðherra kvartar undan því að búið sé að gefa allsherjarveiðileyfi á hann. Forsætisráðherra bætir um betur og sendir út sérstaka tilkynningu þar sem hún telur upp öll verkefnin sem svar við meintu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Það eru kunnugleg verkefni, eins og háskólasjúkrahús og nýtt fangelsi, sem eiga að vera drifkraftur ríkisstjórnarinnar í atvinnusköpun.

Annað vakti athygli mína í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, kafli um byggingu álvers í Helguvík. Hér segir, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem nokkur kraftur hafi komist í Helguvíkurverkefnið að undanförnu og HS Orka, Magma og Norðurál vinni að því að klára mál þannig að hægt sé að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík í sumar.“

Það er nefnilega það. Þetta sagði forsætisráðherra 25. maí en á sama tíma sat umhverfisráðherra annars staðar í Stjórnarráðinu og undirbjó að eigin sögn frumvarp sem beinlínis hefur það að markmiði að taka eignarnám í sama fyrirtæki og þarna var nefnt. Reyndar sló svo iðnaðarráðherra á puttana á hæstv. umhverfisráðherra og sagði hana vera að vasast í sínum málaflokki.

Misvísandi skilaboð ríkisstjórnarinnar eru beinlínis skaðleg. Ég kalla eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Greiðasta leiðin til að skapa verðmæti sem þarf til að fá nægan hagvöxt til að við komum okkur út úr þessum vandræðum sem við erum í liggur í fjárfestingum í fyrirtækjum og auknum útflutningi. Hér eiga stjórnvöld ekki að letja fjárfesta eða leggja stein í götu þeirra og fyrirtækjanna heldur að hvetja þessa sömu aðila. Ríkisstjórnin hefur nákvæmlega verið að letja í þessum efnum.

Ég leyfi mér að fullyrða að beinlínis hafi verið unnin skemmdarverk á fjölmörgum mikilvægum atvinnuverkefnum, til að mynda á Suðurnesjum, sem þó snúast ekki öll um álver, bara þannig að það sé sagt hér. Það eru fjölmörg verkefni á sviði heilbrigðismála, flugrekstrar og svo eru alls konar „eitthvað annað“ málefni sem er búið að stöðva. (Gripið fram í.) Það er alltaf bent á „eitthvað annað“ en Suðurnesjamenn höfnuðu pólitík Vinstri grænna um helgina. Íbúar tveggja hreppa við neðri hluta Þjórsár höfnuðu líka pólitík Vinstri grænna um helgina og sendu skilaboð um að mikill meiri hluti þeirra vildi nýta orkuna á svæðinu til uppbyggingar. Vinstri grænir tala mikið um íbúalýðræði. Hvað segir formaður Vinstri grænna um þessi skilaboð?

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að engar frekari ákvarðanir tengdar virkjunum í neðri hluta Þjórsár verði teknar þar til rammaáætlun liggur fyrir. Er það kannski þess vegna sem rammaáætlunin er föst í þingflokki Vinstri grænna? Er það kannski (Forseti hringir.) vegna þess að þau sjá að þau eru í minni hluta og treysta ekki lýðræðinu?

Ég held, virðulegi forseti, að ef við eigum að endurreisa þjóðarhag á næstu árum þurfi miklu meiri hagvöxt en spár ganga út á. (Forseti hringir.) Ef Vinstri grænir eru ekki tilbúnir að koma með okkur í það verkefni heiti ég á aðra flokka á Alþingi að taka höndum saman (Forseti hringir.) með okkur sem viljum gera það og skilja Vinstri græna eftir í fjötrum öfga og aðgerðaleysis.