138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara leggja áherslu á það að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni og ég held að það hafi komið skýrt fram í áliti meiri hluta viðskiptanefndar að við teljum að eignarhald fjármálastofnana á einkafyrirtækjum er ekki skynsamlegt og við viljum leita leiða til þess að takmarka það með sem bestum hætti. Við erum einmitt að velta því fyrir okkur og höfum gert það hér í umræðunni hvort skynsamlegt sé að setja stífari tímaramma á það eignarhald. Vonandi munum við geta tekið málefnalega umræðu um það á vettvangi nefndarinnar á milli 2. og 3. umr.

Hvað varðar sparisjóðakerfið tel ég að við höfum t.d. með breytingartillögu í þessu frumvarpi opnað á mjög athyglisverða möguleika fyrir sparisjóði í endurreisn þeirra. Þar er viðmiðunartala um stofnfé lækkuð niður í 1 milljón evra og þannig leitast við að tryggja að lítil fjármálafyrirtæki geti starfað á afmörkuðum staðbundnum markaði og veitt grunnbankaþjónustu, þ.e. ekki fjárfestingarbankastarfsemi.

Ég tel að framtíðarstefnumótun í tilviki sparisjóðakerfisins sé þörf og ég held að við ættum að fara í hana. Þar erum við hjartanlega sammála að ég tel. Hins vegar erum við í miðju kafi núna í björgunaraðgerðum, menn eru þar upp fyrir haus. Það hefur ítarlega komið fram í nefndinni að menn standa nú í flóknum samningaviðræðum til að geta bjargað sparisjóðahugsuninni með einhverjum hætti svo menn haldi t.d. nauðsynlegu sambandi við héruðin, nauðsynlegu sambandi við fyrrum stofnfjáreigendur. En menn verða að gera sér ljóst að miklir peningar, miklir fjármunir töpuðust í sparisjóðakerfinu, stofnfjáreigendur víða um land töpuðu miklum fjármunum. Ég tel það alls óvíst hvort þeir eru tilbúnir til að taka þátt í endurreisn sparisjóðakerfisins fyrr en í fyrsta lagi eftir að björgunaraðgerðum er lokið og menn hafa komið sér saman um hvaða stefnumótun til framtíðar ber að hafa í þessum efnum.