138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

stimpilgjald og aukatekjur ríkissjóðs.

530. mál
[16:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög þarft mál. Þannig er að ég hef ætíð verið á móti stimpilgjaldi sem slíku og vil sjá veg þess sem minnstan. Ég skil reyndar ekki af hverju það er yfirleitt til. Sérstaklega finnst mér ekki gæfulegt að hvað varðar skuldbreytingar skuli verið að skattleggja eymd, volæði og fátækt. Ég er það velferðarlega sinnaður að ég fagna þessari breytingu sem skattleggur þó ekki skuldbreytingu á íbúða- og bílalánum. Það eru ýmis lán eftir og í anda þess að skuldbreytingar eru yfirleitt eitthvað sem er gert þegar fólk getur ekki staðið í skilum — fólk er í vandræðum og það er sem sagt verið að skattleggja þessi vandræði sem oft eru peningaleysi, fátækt og tekjumissir og annað slíkt — hefði ég viljað sjá í þessu frumvarpi að skattfrelsi yrði sett á öll skuldbreytingarlán þar sem menn þurfa að gefa út nýtt skjal, sérstaklega í ljósi þess að þeir sem hafa þekkingu, kunnáttu og aðstöðu til fara ekki í skuldbreytingu heldur fara þeir í skjalabreytingu og losna við að borga stimpilgjaldið.

Ég vildi því sjá hv. nefnd taka sér tak í þessu og leggja stimpilgjaldið alveg af en ég stend að sjálfsögðu með frumvarpinu þó að það gangi ekki lengra en hér er um rætt. Þessi fyrirvari minn á jafnframt við um hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson sem skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara.