138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

upplýsingar um eignarhald nýju bankanna.

[14:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að svara beri fyrirspurn hans varðandi eignarhald á bönkunum. Hvers vegna er einfaldlega ekki hægt að upplýsa þetta? Það er búið að kalla eftir svörum í margar vikur ef ekki mánuði. Ég man ekki betur en að fyrir ári hafi verið kosningar til Alþingis og að hér hafi verið fólk sem ætlaði sér að gera betur en fyrri ríkisstjórnir, fólk sem ætlaði að breyta vinnubrögðum og hafa allt uppi á borðum með tilvísan til þess að svo hefði ekki verið í fortíðinni.

Ég get ekki séð að þetta ágæta fólk stjórnarflokkanna geti komið nokkru af sínum stefnumálum í framkvæmd og þar á meðal ekki þessu vegna þess að hér ríkir leyndarhyggja um allt, m.a. um það hverjir eiga þessa banka. Ég skil ekki, frú forseti, hvers vegna ekki er hægt að svara þessum spurningum, koma öllu upp á borðið. Er það ekki það sem málið snýst um?