138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

opinberir háskólar.

579. mál
[16:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Okkur hefur orðið tíðrætt um endurmenntun og kannski ekki síst hvernig best verði staðið að endurmenntun í grunnnámi þannig að landsmenn allir geti stundað sitt grunnháskólanám sem allra best. Það sem verið er að afnema í raun og veru með þessum breytingum er ákveðið grunnnám sem hefur verið í gangi gegn gjaldi í staðnámi.

Nú er staðan sú að við lifum á 21. öldinni og margir möguleikar eru til að stunda nám sem betur fer. Ég sem hér stend og er dreifbýliskona hef átt þess kost að stunda bæði grunnnám og framhaldsnám með því að búa heima hjá mér og stunda fulla vinnu og frábið mér þann málflutning algjörlega að hér sé verið að loka fyrir það að boðið verði upp á grunnnám á háskólastigi í opinberum háskólum. (ÓBK: Það er enginn að tala um það.) Í mörgum deildum háskólans getur fólk lagt stund á nám með ýmsu móti, t.d. grunnskólakennaranám, leikskólakennaranám, hjúkrunarfræðinám og annað slíkt. Það getur verið þannig að fólk fari í það sem kallað hefur verið innilotur og stundi síðan nám sitt heima hjá sér þess á milli eða hvar sem er. Það eina sem verið er að loka á í þessu sambandi er að tiltekinn hópur sem býr nálægt háskóla geti í raun og veru stundað þetta nám og borgað fyrir það. Það er ekkert annað sem verið er að loka á. Við viljum öll háskólanámi á Íslandi, hvort heldur það er grunnnám eða framhaldsnám, það allra besta. Ég get ekki séð að verið sé að loka fyrir neitt annað en bara það að ákveðinn hópur geti mætt í staðbundinn háskóla og borgað fyrir það. Það er eini möguleikinn sem verið er að loka fyrir. Öll önnur endurmenntun, hvort heldur sem er í grunnnámi eða framhaldsnámi er í raun og veru enn þá í boði. Ég legg því til að við öndum dálítið rólega. Mig langar til að leggja mikla áherslu á að við verðum að tryggja það að allir íbúar á Íslandi eigi möguleika á því að stunda endurmenntun. Þess vegna eigum við að leggja miklu meiri áherslu á að hægt sé að stunda dreifnám og fjarnám en staðbundið nám.