138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta viðskiptanefndar.

Frumvarpið miðar að því að auðvelda uppgjör fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið greip inn í á grundvelli neyðarlaganna. Að óbreyttum lögum hafa fjármálafyrirtæki heimild til að veðsetja eigur sínar og gefa út skuldabréf gegn veðum. Frumvarpið miðar að því að ljúka því ferli sem hófst með setningu neyðarlaganna. Þau ákvæði sem felast í frumvarpinu gera þeim fjármálafyrirtækjum sem frumvarpið nær til auðveldara fyrir en að óbreyttum lögum að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli með því að bæta við eignum í veðsafn sem og að skipta út einstökum eignum.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um samningsveð er kveðið á um að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða kann að eignast. Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að þrátt fyrir þessa reglu verði fjármálafyrirtæki heimilt að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim, enda sé slíkt nauðsynlegt í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli neyðarlaganna og ákvæði þeirra laga sem nú eru í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki. Verði frumvarpið að lögum verður fjármálafyrirtæki einnig heimilt að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli og skipta út einstökum eignum samkvæmt samkomulagi við veðhafa án þess að þurfa að tilkynna slíkt skuldara skv. 46. gr. laga um samningsveð. Gildissvið frumvarpsins er því mjög skýrt afmarkað, þ.e. það nær eingöngu til fjármálafyrirtækja þar sem Fjármálaeftirlitið hefur beitt hinum sérstöku heimildum neyðarlaga til að ráðstafa eignum og skuldbindingum til þriðja aðila.

Samkvæmt 46. gr. laga um samningsveð öðlast veðréttur í almennum kröfum réttarvernd við það þegar skuldari fær tilkynningu um veðsetningu frá veðsala eða frá veðhafa. Í 2. gr. frumvarpsins felst frávik frá þessari grein um það hvernig veðréttur skv. 1. gr. frumvarpsins öðlast réttarvernd, að því marki sem hann varðar kröfuréttindi eða undirliggjandi veð sem tengjast slíkum kröfuréttindum. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að veðrétturinn öðlist réttarvernd með þinglýsingu yfirlýsingar á blað fjármálafyrirtækis í lausafjárbók þess efnis að fjármálafyrirtæki hafi nýtt heimild 1. gr. án þess að þar séu tilgreindar þær eignir sem veðsettar eru hverju sinni.

Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að ráðstafanir fjármálafyrirtækis sem tengjast afhendingu fjármuna inn í hið veðsetta eignasafn skuli ekki sæta riftun á grundvelli ákvæða laga um gjaldþrotaskipti. Sem dæmi má nefna að skv. 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk síðustu sex mánuði fyrir frestdag og á hið sama við ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau eru ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustuaðgerðum án ástæðulauss dráttar eftir að skuld varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í ljósi þessa er því kveðið á um það í 3. gr. frumvarpsins að veðsetning eigna skv. 1. gr. laganna skuli ekki sæta riftun samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga sem varða ráðstafanir þrotamanns. Nær það jafnt til upphaflegrar veðsetningar sem og þess þegar frekari eignum er bætt í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli. Regla sem þessi er óhjákvæmileg til að tryggja að hið veðsetta eignasafn haldist óbreytt til fullnustu á þeim skuldbindingum fjármálafyrirtækisins sem veðsetningin tengist.

Frú forseti. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að frumvarpið næði einnig til fyrirtækja sem hefðu verið stofnuð á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins og hefðu tekið yfir eignir og skuldbindingar þeirra sem hefðu tekið við innlánum en væru ekki fjármálafyrirtæki. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til að bætt verði við nýrri grein í frumvarpið sem nær til annarra fyrirtækja, eftir atvikum, sem stofnuð hafa verið til að ganga frá uppgjöri á eignum og skuldbindingum fjármálafyrirtækis vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sem tekin hefur verið á grundvelli neyðarlaganna. Það er þá Fjármálaeftirlitsins að meta hvort viðkomandi fyrirtæki falli undir ákvæði þessarar málsgreinar áður en því er beitt.

Í nefndinni var rætt um það hvort samþykkt frumvarpsins rýrði eða takmarkaði forgang Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Við umfjöllun í nefndinni kom fram að frumvarpið veitir fjármálafyrirtækjum í raun enga nýja heimild til veðsetningar umfram það sem þau hafa nú þegar, heldur auðveldar einungis rekstur og meðferð hins veðsetta safns í þeim tilvikum þegar um er að ræða uppgjör á grundvelli neyðarlaganna. Frumvarpið breytir því ekki að veðkröfur eru rétthærri í kröfuröð en forgangskrafa Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Því er ljóst að eftir því sem fjármálafyrirtæki veðsetur meira af eignum sínum kann möguleiki sjóðsins til endurheimtu úr þrotabúi að rýrna, eins og verið hefur.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með tveimur breytingarliðum.

Undir nefndarálitið rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Valgerður Bjarnadóttir.