138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum, mál nr. 645, á þingskjali 1165.

Með lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, er Seðlabanka Íslands falið það hlutverk að tryggja stöðugleika í gengis- og peningamálum með því að takmarka og stöðva tiltekna flokka fjármagnshreyfinga til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast með útgáfu reglna. Samkvæmt lögunum fer Seðlabanki Íslands með eftirlit með lögum og reglum um gjaldeyrismál en Fjármálaeftirlitið annast rannsókn þeirra mála sem Seðlabankinn tilkynnir til eftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur heimildir til að leggja stjórnvaldssektir á þá sem brotlegir gerast eða vísa meiri háttar málum til lögreglu.

Í ljósi þess að Seðlabanka Íslands ber að hafa eftirlit með lögum og reglum um gjaldeyrismál þykir eðlilegt að Seðlabankinn fari einnig með rannsókn og framfylgni þeirra mála. Af þeim sökum er lagt til í frumvarpinu að Seðlabanki Íslands taki við því hlutverki Fjármálaeftirlitsins að rannsaka mál og leggja á sektir. Til að svo megi vera verður að tryggja Seðlabanka Íslands þau úrræði og þær heimildir sem þörf er á við rannsókn þessara mála, sambærilegar þeim sem Fjármálaeftirlitið hefur nú. Mun ég nú rekja helstu breytingar sem gerðar eru á lögunum.

Í fyrsta lagi er málskotsheimild til ráðherra vegna ákvarðana Seðlabanka Íslands um undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál felld niður, en í tilfelli sjálfstæðra ríkisstofnana líkt og Seðlabanka Íslands þarf sérstaka lagaheimild til að aðila máls sé heimilt að skjóta ákvörðunum stofnunarinnar til æðra setts stjórnvalds. Almennt er aðila máls hins vegar heimilt að bera stjórnsýsluákvörðun undir dómstóla og gera kröfu um að hún verði ógilt. Í ljós hefur komið að þær kærur sem berast ráðuneytinu í þessum málum eru yfirleitt tengdar atvinnurekstri og fjárhæðir háar. Það verður því að telja að í þessu tilfelli eigi ekki við sjónarmið um að tryggja almennum borgurum ódýra leið til að fá ákvörðun stjórnvalds hnekkt. Þar að auki er Seðlabanka Íslands fengið verulegt svigrúm til að tryggja stöðugleika í gengis- og peningamálum og ber honum m.a. við mat á undanþágum að líta til þeirra sjónarmiða. Það verður því að telja eðlilegt að ákvarðanir Seðlabanka Íslands sæti ekki endurskoðun ráðherra.

Í öðru lagi er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja leiðbeinandi tilmæli um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta og leggja dagsektir á þá aðila sem ekki fylgja reglum og leiðbeinandi tilmælum um gjaldeyrisviðskipti. Samkvæmt núgildandi lögum hefur Seðlabankinn væg úrræði til að krefja þá aðila sem hafa leyfi til gjaldeyrisviðskipta um að setja sér innri ferla um framkvæmd reglna um gjaldeyrismál. Ekki er hlaupið að því að setja slík tilmæli í reglur og því er lagt til að Seðlabankinn hafi jafnframt heimild til að setja leiðbeinandi tilmæli. Er í því sambandi horft á heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja leiðbeinandi tilmæli um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Í þriðja lagi er lagt til að skýrt sé kveðið á um það að Seðlabankanum sé heimilt að leggja dagsektir á aðila verði þeir ekki við beiðni bankans um að veita upplýsingar sem hann kann að óska eftir til að geta sinnt nauðsynlegu gjaldeyriseftirliti.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á 15. gr. a til 15. gr. e, sem fela það í sér að Seðlabankanum eru fengnar þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt núgildandi lögum, þar með talið heimild til að leggja á stjórnvaldssektir. Til að tryggja að Seðlabankinn hafi sömu rannsóknarúrræði og Fjármálaeftirlitið er nauðsynlegt að styrkja heimildir bankans til að óska eftir upplýsingum og mæla fyrir um heimild hans til að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála.

Í fimmta lagi er lagt til að fimm nýjar greinar bætist við lögin, 15. gr. f til 15. gr. h, 16. gr. c og 16. gr. d.

Samkvæmt 15. gr. f er Seðlabankanum heimilt að afla upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, óháð þagnarskyldu og á greinin sér fyrirmynd í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ljóst er að ýmsar stofnanir sinna eðlislíkum störfum og Seðlabankinn og kunna ýmsar upplýsingar að liggja fyrir hjá öðrum stjórnvöldum sem kunna að vera gagnlegar fyrir athuganir Seðlabankans. Rétt er þó að árétta að slíkar upplýsingar sem Seðlabankinn kann að afla falla undir þagnarskylduákvæði 15. gr. laganna. Það er einnig ljóst að við eftirlit með lögunum mun Seðlabankinn þurfa að afla gagna erlendis frá og er kveðið á um að bankinn geti notið aðstoðar Fjármálaeftirlitsins við slíka gagnaöflun.

Í 15. gr. g er lagt til að Seðlabankanum séu veitt nauðsynleg úrræði til að hafa eftirlit með starfsemi þeirra sem hafa heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt lögunum. Er um að ræða heimild til vettvangskannana og tilkynningarskyldu aðila um brot á lögunum, en horft var til sambærilegra úrræða í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Í 15. gr. h er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að leggja dagsektir á aðila verði þeir ekki við beiðni um upplýsingar, sem bankinn kann að óska eftir til að geta sinnt nauðsynlegu eftirliti og rannsóknum, eða sinni ekki kröfu um úrbætur. Ákvæðið tekur mið af sambærilegu ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Í 16. gr. c segir að aðila sé heimilt að höfða mál fyrir dómstólum vilji hann ekki una ákvörðun Seðlabanka Íslands innan þriggja mánaða frá því honum var tilkynnt um ákvörðunina. Sambærilegt ákvæði er að finna í 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Byggist ákvæðið á því að mikilvægt sé að aðili sem ekki vill una ákvörðun Seðlabankans geti höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum.

Með tillögu að 16. gr. d er litið til sambærilegrar heimildar í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er heimilar Fjármálaeftirlitinu að birta niðurstöðu í málum og athuganir sem byggjast á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lagt til að Seðlabanki Íslands fái sömu heimildir, að breyttu breytanda, enda er aukin upplýsingagjöf til þess fallin að auka trúverðugleika og veita aukið aðhald.

Í sjötta lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á bráðabirgðaákvæðum laganna sem og tollalaga, en með þeim er Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur til að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta vegna þeirra. Heimildin nær til 30. nóvember 2010 en lagt er til í frumvarpinu að hún verði framlengd til 31. ágúst 2011.

Nú liggur ekki fyrir hvenær gjaldeyrishöftum verður að fullu aflétt þótt nýlegar aðgerðir Seðlabankans gefi mjög líklega tilefni til þess að tekin verði myndarleg skref á næstu mánuðum í þá átt. Gert er ráð fyrir að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ljúki í ágúst 2011 og er það sú dagsetning sem miðað er við í frumvarpinu. Ég tel hins vegar að hugsanlega væri rétt að lengja þennan tíma enn frekar, t.d. til ársloka 2011, en þá ætti framtíð gengis- og peningamála að verða orðin skýrari og minni óvissa í efnahagsmálum þjóðarinnar og því hægt að segja til um með meiri vissu hvenær höftunum verður að endingu lyft. Nauðsynleg umræða um framtíð haftanna verður þó ekki aðskilin umræðu um aðra þætti í efnahagsáætlun stjórnvalda, þar með talið ríkisfjármál og framtíð peninga- og gengismála.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.