138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það lá svo sem að, að hv. þingmaður úr Sjálfstæðisflokki mundi spyrja mig nánar út í orð mín, enda séreignarstefnan sérstaklega hugleikin sjálfstæðismönnum og kannski framsóknarmönnum líka.

Það sem ég átti við er að aðstæður á lánsfjármörkuðum hafa auðvitað haft áhrif. Þegar fasteignabólur verða á markaði og húsnæðisverð fellur en lánin falla ekki að sama skapi, þá myndast neikvæð eiginfjárstaða í húsnæði. Þegar megnið af fólki á húsnæðismarkaðnum er í eigin húsnæði, er það fast í húsnæði sínu. Það er oft ungt fólk í tiltölulega viðkvæmri stöðu sem lendir í þessum aðstæðum. Það á í mjög miklum erfiðleikum með að koma sér í ódýrara húsnæði sem hentar betur breyttri fjárhagsstöðu.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson þekkir vel til aðstæðna í Svíþjóð eftir fasteignabóluna þar í upphafi tíunda áratugarins. Þá var það einmitt mikilvægur hluti í skuldaaðlögunarferli í sænska hagkerfinu að ýmis fasteignafélög voru tekin inn í sérstök félög og unnið með vanda þeirra. Í fjölbýlishúsum hér á landi eru eigendurnir jafnmargir og íbúðirnar og þá er mjög flókið að beita aðgerðum. Það upplifum við núna þegar það þarf að fást við hvert og eitt heimili. Hér er ekki hægt að taka til dæmis fasteignafélög til meðhöndlunar og þar með heimilin. Í leiguhúsnæði í fasteignafélagi er það svo að ef fólk lendir í þeirri stöðu að geta ekki staðið undir leigunni, þá getur það sagt upp húsnæðinu og farið í annað minna, þar sem kostnaðurinn fellur betur að tekjum þeirra.