138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa.

646. mál
[21:00]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skilmálabreytingar verðtryggðra lánasamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna kaupa á bifreið til einkanota. Þetta frumvarp á rætur að rekja til ákvörðunar sem tekin var í mars síðastliðnum um að leita eftir samkomulagi við eignarleigufyrirtæki um umbreytingu bílalána í eðlilegra horf í ljósi þess hversu mjög gengistryggð bílalán höfðu hækkað umfram upphaflegar forsendur og umfram verðþróun bifreiða. Lagt var upp með samningaviðræður við eignarleigufyrirtækin. Við áttum í löngum viðræðum við þau en ekki var samstaða um að ljúka málinu með samkomulagi á þeim tíma. Hitt var hins vegar ljóst að fyrirtækin höfðu skilning á stöðunni en þau voru í misjafnri aðstöðu til að takast á við vandann. Það er auðvitað hlutverk löggjafans að skipa málum með almennri löggjöf ef sammæli geta ekki orðið með einföldum hætti um annað á markaði. Frumvarpið er lagt fram til að tryggja rétt skuldara gengistryggðra bílalána til að umbreyta lánunum í það horf sem þau væru í ef þau hefðu verið verðtryggð frá upphafi.

Það er mikilvægt að hafa það hugfast að hér er ekki verið að gefa neinum neitt. Hér er verið að gefa fólki, sem þurfti að þola mikla hækkun lána langt umfram verðþróun bílanna sem liggja að baki veðinu, færi á að snúa lánunum í annan vel þekktan farveg, sem er ferli verðtryggðra lána sem mikil reynsla er af.

Eftir hrunið í október 2008 breyttust efnahagslegar aðstæður verulega. Stórfelld aukning skulda samfara mikilli lækkun eignaverðs veldur því að engar líkur eru á að efnahagslegar forsendur séu fyrir því að allar kröfur á einstaklinga í landinu endurheimtist. Geta samfélagsins til verðmætasköpunar stendur með öðrum orðum ekki undir endurgreiðslu allrar skuldabyrði þjóðarbúsins.

Láns- og kaupleigusamningar sem gerðir eru við einstaklinga vegna kaupa á bifreið til einkanota fela í sér meiri áhættu en lán vegna fasteignakaupa. Þrátt fyrir þetta var það svo fyrir hrunið í október 2008 að samningar við einstaklinga um lán eða kaupleigu voru oft gerðir án þess að fram færi sérstakt mat á greiðslufærni viðkomandi. Samningarnir voru oft afgreiddir á tiltölulega skömmum tíma, jafnvel þótt um dýrar bifreiðar væri að ræða.

Á borði mínu er eitt hörmulegt mál af þessum toga, 18 ára piltur sem tók lán til að kaupa dýra BMW-bifreið með 100% láni frá eignarleigufyrirtæki. Drengurinn hafði aldrei tekjur til að standa undir afborgunum af láninu. Það má auðvitað spyrja sig: Hvað var hann að hugsa? Það má gera ríkar kröfur til hans eftir að hafa tekist á hendur slíkar óraunhæfar skuldbindingar. En það er fjarri mínum skilningi á réttlæti að sá sem veitti lánið beri enga ábyrgð í þessu máli. Og sá sem tók þá ákvörðun að lána 18 ára unglingi fyrir rándýrri bifreið án þess að kanna yfir höfuð hvort viðkomandi hefði vinnu hvað þá annað. Það er ekki í samræmi við minn réttlætisskilning að fyrirtæki sem þannig gengur fram geti átt siðferðilega eða lagalega kröfu á aflahæfi hins unga manns án nokkurra takmarkana. Það hlýtur að vera ábyrgð beggja, bæði þess sem tók lánið og þess sem veitti það.

Markmið frumvarpsins er ekki að létta raunverulegri áhættu af þeim sem tóku lán. Þeir sem tóku lánin verða aldrei betur settir en ef þeir hefðu tekið verðtryggð lán í upphafi. Við vitum öll að þar bjóðast engin stórkostleg kostakjör. Það eina sem við hemjum er hversu miklar væntingar viðsemjandinn getur gert sér. Í rauninni er ávinningur lánafyrirtækja eins og sérstakur happdrættisvinningur í kjölfar hins mikla gengishruns sem varð, langt umfram það sem nokkur efnisleg rök mæla fyrir.

Það er líka rétt að hafa í huga að fyrirtæki sem hafa lánað til íbúðarhúsnæðis sem á að standa í áratugi eða árhundruð hafa fallist á að hemja væntingar sínar um endurheimtur og umbreytt lán. Þau miða gjarnan við 80-110% af verðmæti eigna eftir greiðslugetu. Um er að ræða trygg veð sem eiga að standa næstu áratugina eða árhundruðin. Því eru engin rök fyrir því að lán sem veitt eru með veði í eins ótryggri eign og bílar eru, eigi að setja skör ofar.

Virðulegi forseti. Það er ljóst af úttekt Seðlabanka Íslands á skuldastöðu heimilanna að mjög stór hluti af heimilum sem teljast í vanda, eru með skuldir vegna bílakaupa. Greining Seðlabanka Íslands sýnir að engin ein aðgerð sem hægt er að grípa til fækki í hópnum sem ella þarf flókin og kostnaðarsöm úrræði til þess að leysa úr skuldavandanum eins og það að taka á óeðlilegri hækkun gengistryggðra bílalána.

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti hér áðan er ekki verið að gefa neinum neitt. Mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess. Það er jafnframt þjóðhagslega nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa til aðgerða sem þessara. Það er rétt að hafa í huga að með þessari aðgerð er ekki gengið gegn eignarrétti kröfuhafa. Aðferðafræðin í frumvarpinu felur í sér að kröfuhafi fær endurgjald í samræmi við þau verðtryggðu lánskjör sem hann bauð skuldurum upphaflega á viðskiptalegum forsendum. Einungis er verið að takmarka óeðlilegan ávinning kröfuhafa af gríðarlegri hækkun gengistryggðra lána. Um leið færist hann nær endurgjaldinu sem er alþekkt á Íslandi og mikil reynsla er af. Fyrir kröfuhafa er þetta fullkomlega ásættanlegt og fullnægjandi endurgjald í samræmi við verðtryggðan reikning lánsins.

Það ber líka að hafa í huga þau mýmörgu fordæmi í íslenskri löggjöf um íhlutun löggjafarvalds og stjórnvalda í vaxta- og verðtryggingarskilmálum. Hámark hefur verið sett á vexti og ávöxtun verðtryggðra lána og verðtryggingarvísitölu hefur oft verið breytt.

Í greinargerð með frumvarpinu eru rakin ítarlega önnur dæmi sem styðja þá lagalegu röksemdafærslu að hér sé ekki á nokkurn hátt vegið gegn réttindum kröfuhafa. Það verður líka að hafa í huga að réttindi kröfuhafa eru ekki gefin stærð í efnahagsástandi sem þessu. Það hlýtur að hvíla sú skylda á hverjum kröfuhafa sem telur að sér vegið með þessum umbreytingum, að rökstyðja það að hann geti innheimt allan þann skuldastabba sem hann bókfærði sem eign. Ég held, virðulegi forseti, að það sé óvinnandi vegur fyrir nokkurt eignarleigufyrirtæki í dag, í ljósi stöðu lána og ástands í samfélaginu, að sýna fram á að lánin séu hverrar þeirrar krónu virði sem er færð í bókhald viðkomandi fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Að síðustu er í frumvarpinu gert ráð fyrir ýmsum úrræðum til þess að styðja þá sem varlega fóru í skuldsetningu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hámark niðurfellingar verði 3.000.000 kr. sem nýtist best þeim sem fóru varlegast í skuldsetningu. Í frumvarpinu er líka að finna ákvæði sem ætlað er að styðja friðhelgi heimilis skuldara. Í frumvarpinu eru ákvæði sem tryggja rétt lántaka til að nota fullt söluverð bifreiðar til frádráttar frá eftirstæðri skuld og rétt skuldara til að ljúka greiðslu eftirstæðra skulda með greiðslu helmings eftirstöðva án vaxta eða verðbóta. Það verði með öðrum orðum hægt að greiða upp eftirstæðar kröfur, krónu á móti krónu. Auk þess að eftirstæðar kröfur taki ekki vexti eða verðtryggingu eftir að gengið hefur verið að bíl vegna vanskila skuldara.

Þetta fyrirkomulag á sér fyrirmynd í reglugerð sem ég hef nýlega sett og er um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Hún byggir á reglu frá 2003 um sama efni sem hefur gefist afskaplega vel.

Að síðustu er kveðið á í frumvarpinu um bann við að lánveitandi geti leitað fullnustu vegna eftirstöðva skuldbindinga vegna bílalána í íbúðarhúsnæði lántaka. Frumvarpinu og öllum reglunum er ætlað að verja húsnæðisöryggi fjölskyldna og skapa endurheimtumöguleikum kröfuhafa eðlilega umgjörð og ramma. Við viljum styðja og standa vörð um rétt kröfuhafa til sanngjarns endurgjalds. Hann er verndaður eins og aðrar eignir í 72. gr. stjórnarskrár. Við hliðina á þeirri grein er í 71. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Það er fullkomlega eðlilegt að verndarhagsmunirnir, sem þessar tvær greinar taka til, vegist á við aðstæður eins og þær sem við lifum nú. Þessu frumvarpi er ætlað að skera á þennan hnút og skapa eðlilegt jafnvægi í þessum erfiðu málum.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til nefndar að lokinni þessari umræðu.

Ég hef heyrt af áhuga efnahags- og skattanefndar að fá málið til umfjöllunar. Það er í sjálfu sér úrlausnarefni á vettvangi þingsins hvernig málum er vísað til nefnda. Ég geri ekki athugasemdir ef það er vilji þingsins að málið fari til efnahags- og skattanefndar og verði afgreitt þar.