138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:32]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Til að allrar sanngirni og velsæmis sé gætt í gagnrýni á meiri hlutann varðandi skipulag þingsins þarf líka að minna á að í þarsíðustu viku tók þingið sér hlé í viku til þess að þingmenn og ráðherrar gætu endasenst um kjördæmin og stutt við bakið á sínu fólki í sveitarstjórnarkosningum — með litlum árangri, sem betur fer. Þingið tók sér hlé til að taka þátt í pólitískri baráttu á kostnað Alþingis, á kostnað almennings. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Þinginu hefði lokið heilli viku fyrr ef alþingismenn hefðu haft þá sæmd að sitja hér og taka þátt í þingstörfum í staðinn fyrir að blanda sér í sveitarstjórnarkosningar. Svona á þingið ekki að haga sér. Þingmenn Hreyfingarinnar voru þeir einu á þinginu sem gagnrýndu þetta fyrirkomulag. Allur fjórflokkurinn eins og hann lagði sig studdi þetta og það er skömm að því.