138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls um að þingið einbeiti sér að þeirri dagskrá sem hér liggur fyrir. Það er einmitt það sem stjórnarandstaðan hefur talað um, að eftir henni verði farið og að greidd verði atkvæði um frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Kjarni málsins, sem verið er að gagnrýna, er að ekki hafi verið farið eftir dagskránni. Það er alveg hárrétt að það voru nægilega margir þingmenn í Alþingishúsinu til þess að greiða atkvæði. Að mati stjórnarmeirihlutans voru bara ekki réttir þingmenn í húsinu vegna þess að allt bendir til þess að ríkisstjórnin hafi ekki haft meiri hluta fyrir eigin máli.

Við vitum öll að það hafa verið vandamál í þessu ríkisstjórnarsamstarfi og (Forseti hringir.) miklar eldglæringar á milli ríkisstjórnarflokkanna en ég held að með þessari uppákomu hafi steininn tekið úr (Forseti hringir.) varðandi óeiningu og innanmein innan ríkisstjórnarinnar.