138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

húsaleigulög o.fl.

559. mál
[17:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum eitt af þremur málum frá hv. félags- og tryggingamálanefnd sem láta lítið yfir sér, eru ekki stór í sniðum en hafa samt sinn tilgang. Hér er lagt til að fækka kærunefndum og það á að spara ríkissjóði 2–4 milljónir. Mér finnst það reyndar allt of lítill sparnaður til að það taki því að leggja fram heilt frumvarp til laga og fara í gegnum alla nefndavinnuna. Ég held að menn ættu að vera dálítið stórtækari. Þarna er t.d. lagt fyrir að það séu skipaðir sex menn með ýmiss konar þekkingu í húsanefnd og í kærunefnd húsamála, eins og það heitir. Ég held að hv. Alþingi ætti að taka sér tak og skoða að steypa þessu öllu saman í eina kærunefnd eða jafnvel nýjan stjórnsýsludómstól þannig að við tökum skrefið til fulls.

Einföld lög og rökrétt leiða sjaldan til ágreinings, það hefur sýnt sig. Menn átta sig strax á gildi laganna og sjá hvernig þeir eiga að hegða sér, vita að þeir eiga þennan rétt en ekki hinn og þá er ágreiningur mjög lítill. Þegar lög eru hins vegar flókin og snúin og fjalla kannski líka um snúin málefni, svo maður tali ekki um mál sem varða barnavernd og annað slíkt, þá eru málin miklu erfiðari. Mér finnst að menn eigi fyrst og fremst að vinna að því að hafa lög einföld og rökrétt og í öðru lagi þurfa menn að gæta að því að borgarinn hafi greiða leið að úrskurði ef hann lendir upp á kant við ríkisvaldið eða aðra borgara. Úrskurðurinn þarf að vera hraður og þá væntanlega rökréttur með hæfu fólki.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að hafa frekar dómstól sem starfar stöðugt og hefur sæmilega mikið af verkefnum en úrskurðarnefnd sem fær kannski örfá verkefni á ári, hittist öðru hverju en klárar ekki málin strax vegna þess að ekkert liggur fyrir. Það tekur því kannski ekki að hittast út af einu máli og þannig geta málin dankast. Þannig getur það gerst að þegar dómstóll fjallar um mjög fá mál, vegna þess að lögin eru einföld og rökrétt eða vegna þess að það eru lítil umsvif undir viðkomandi lögum, leiði það í rauninni til verri þjónustu við borgarann. Ég held nefnilega að við ættum að skoða í alvöru þá hugmynd sem var reifuð dálítið í nefndinni, um að taka upp eina allsherjarúrskurðarnefnd í öllum málum hjá stjórnsýslunni. Hún getur þá skipt með sér verkum, kannski gætu fleiri aðilar komið þar að og einn hópur tekið aðallega fyrir barnaverndarmál, annar húsaleigumál og annað slíkt, skemmdir á byggingum o.s.frv. Þá er viðbúið að starfið verði formlegra og afgreiðslan miklu hraðari og fljótari á þeim málum sem vísað er til kærunefndarinnar eða þessa úrskurðardómstóls.