138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[19:57]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég var hálfpartinn að vona að ég kæmist gegnum minn stutta og fyrirsjáanlega feril á Alþingi Íslendinga án þess að þurfa að sitja undir ræðuhöldum af því tagi sem hv. þm. Pétur Blöndal leyfði sér að hafa uppi í þessum ræðustól.

Fíkn er grafalvarlegur hlutur. Fíkn er helsta böl vestrænna þjóða í nútímanum. Að standa í ræðustól löggjafarsamkundunnar og stinga upp á því að fíklar verði sviptir borgaralegum réttindum, þó ekki nema svo sem í tvö ár eins og hv. þingmaður stakk upp á, er þvílíkt hneyksli að ég á ekki orð til yfir svona málflutning.

Á seinni tímum hefur runnið upp fyrir mönnum að fíkn er einhvers konar sjúkdómur. Vísindin átta sig ekki á því hvers konar sjúkdómur þetta er, geta ekki enn þá sett fingurinn á það af hverju hann stafar og þaðan af síður hvernig hægt er að lækna þessa fíkn. Við erum ekki komin lengra en svo að með fortölum og handleiðslu er reynt að láta það renna upp fyrir sjúklingunum að eina von þeirra í lífinu til að geta öðlast eðlilegt líf sé í þeirra eigin höndum. Ef þeir vilji nógu einlæglega læknast af fíkninni eigi þeir möguleika. Möguleikar alkóhólista t.d., áfengissjúklings, á því að læknast af fíkn sinni án þess að hún eyðileggi fyrir honum meginhluta ævinnar, án þess að hún stytti ævina, eru u.þ.b. 5%. Það er nú allt og sumt. Það þætti ekki merkileg lækning við krabbameini ef læknirinn segði að það sem heilbrigðisþjónustan byði upp á væri ákveðið hvíldarheimili þar sem þú getur verið, elsku vinur, og reynt með hugarorkunni og góðum vilja að lækna þá plágu sem hefur tekið sér bólfestu í þér og svo vona ég bara að þér gangi vel. Það er hægt að sækja styrktarhópa þar sem menn sitja nafnlausir saman og reyna í hópefli að styrkja hver annan til þess að komast frá þessu.

Fólk með þennan sjúkdóm vill hv. þm. Pétur H. Blöndal svipta sjálfræði en þó ekki í nema tvö ár af mannúðarástæðum. En ég spyr á móti: Af hverju bara tvö ár, af hverju ekki ævilangt? Af hverju að láta við það sitja að svipta menn sjálfræði? Af hverju ekki að loka þá inni einhvers staðar? Af hverju ekki sérstakar búðir fyrir fíkla, læstar fangabúðir? Af hverju ekki heildarlausn á vandanum?

Ég veit það ekki. Ég reikna ekki með að til sé svar við spurningu minni. Ég vek aðeins athygli á því og kem hér upp til þess að reyna að gera þingheimi það ljóst að fíkn er eitt af því sem við kunnum lítil skil á og kunnum enga lækningu við. Við ráðum ekkert við hana. Þess vegna ber okkur að fara varlega og gera okkar besta á afskaplega frumstæðan máta með mannúðlegri afstöðu til fíknar og fíkla og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að þau litlu meðöl sem standa þeim til boða séu tiltæk.

Núna vísum við fyrst og fremst til þess með mikilli hneykslan að samtök eins og SÁÁ hafi hluta af tekjum sínum af spilakössum. Þetta þykir alveg svakalegt. Það er vegna þess að þeim ágætu samtökum standa ekki aðrar tekjur til boða. Af hverju er Háskólinn að verulegu leyti fjármagnaður af happdrætti? Jú, það er vegna þess að Háskólanum standa ekki aðrar tekjur til boða í staðinn fyrir það.

Ég geri mér það ljóst, eins og væntanlega þeim sem fjölluðu um frumvarpið í allsherjarnefnd, að þótt það takmarki möguleika alls konar aðila til að setja af stað fjárhættuspil af einhverju tagi, er nútíminn þannig að internetið er komið til skjalanna og internetið er eins og fíknin sjálf, það er stjórnlaust og það þekkir engin landamæri. Við stöndum jafnráðalaus gagnvart því að hemja internetið og að hemja fíknina. En í frumvarpinu birtist góður vilji og ákveðinn skilningur á því að vandamál sé til staðar. Skilningur á því að vandamál sé til staðar er fyrsta skrefið að lausn vandamálsins, lausn sem ég vona að felist ekki í sviptingu borgaralegra réttinda.