138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir það sem hann sagði í byrjun, að þetta væri áhugavert mál, þessi víðtæka heimild. Eins og ég gat um í ræðu minni þá væri þetta í þriðja skiptið sem slíkt væri gert. Þetta var gert með Hvalfjarðargöngin þegar Spölur var stofnaður. Hér er farið í svipað far.

Já, þetta er stjórnarfrumvarp að sjálfsögðu. Samþykkt var í ríkisstjórn og í stjórnarflokkunum að leggja frumvarp mitt fram til umræðu og afgreiðslu á Alþingi. Ég á enga aðra von í brjósti en frumvarpið njóti víðtæks stuðnings allra. Ég hef undanfarna daga og síðast í dag átt fundi með þremur þingflokkum, ákaflega góða fundi eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson veit. Þar voru reifaðar hugmyndir um þessar stórframkvæmdir í vegamálum, m.a. til að skapa atvinnu en ekki bara til að skapa atvinnu, heldur byggja arðbæra, góða vegi og auka umferðaröryggi eins mikið og hægt er. Þessar umræður í öllum þingflokkum hafa verið ákaflega gagnlegar og mikilvægar og góðar. Þess vegna vona ég, virðulegi forseti, að það verði þverpólitísk sátt um málið og það afgreitt héðan þannig. Eins og ég hef rætt um við þingflokkana, er hugmynd mín líka að skipa þverpólitíska nefnd til að vinna að frekari útfærslu á þessum atriðum, þar með talið nýrri aðferð við tekjuöflun til vegagerðar eins og ég hef kynnt, rafræna innheimtu. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að við stjórnmálamenn sem sitjum á Alþingi, fulltrúar allra flokka, fulltrúar fólksins í landinu, förum upp á háan hól og horfum yfir og vinnum þetta í sátt og samlyndi því að þetta er mikið þjóðþrifamál. Þetta er mikið hagsmunamál til framtíðar hvað varðar vegagerð og rekstur vegakerfisins.