138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[11:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að afgreiða þetta mál. Í umræðum í gær tók ég fyrir aðdraganda málsins og nefndi þá aðila sem eru ekki hv. þingmenn en settu þessi mál af stað. Hér hafa verið nefnd nöfn eins og Guðjón Sigurðsson í MND, Evald Krog, Sigursteinn Másson, Svanur Kristjánsson og ýmsir aðrir sem hafa unnið góða undirbúningsvinnu til þess að kynna þetta fyrir þingmönnum, borgarfulltrúum og öðrum. Við erum komin á þennan stað. Þetta er ekkert ósvipuð aðgerð og Svíar gerðu í sinni bankakreppu, að fara í þessa vegferð sem ekki aðeins skilar sér í betri virkni einstaklinga í þjóðfélaginu heldur kemur sömuleiðis vel út fjárhagslega fyrir hið opinbera.

Þetta, virðulegi forseti, er bara fyrsta skrefið. Núna kemur að því að framkvæma þetta og ég vona að það verði jafngóð samstaða um það og þessa atkvæðagreiðslu hér í dag.