138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég var áðan í andsvörum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson. Ég vildi inna hann eftir nánari skýringum á vissum atriðum og ég fékk þær skýringar. Mér skildist hins vegar á fasi hæstv. forseta að það væri ekki eðlilegt andsvar og því ákvað ég að fara í ræðu og það er skýringin á því að ég er kominn í ræðupúlt, ég túlkaði svar forsetans þannig.

Við stöndum frammi fyrir miklum halla á ríkissjóði sem þarf að ná niður, annaðhvort með sköttum eða niðurskurði. Niðurskurðurinn verður sennilega það sem mest verður um vert og er því mjög mikilvægt að unnið sé í samvinnu við heildarsamtök ríkisstarfsmanna — 70% af útgjöldum ríkisins eru laun og ekki verður skorið niður nema skera niður laun. Frumvarpið er því ákveðinn þáttur í þeirri vinnu.

Ég hef sagt að það sé miklu gáfulegra að segja hverjum starfsmanni upp 20% en að segja upp 20% starfsmanna alveg vegna þess að þá rofna tengslin við vinnustaðinn og það fólk færi hvort sem er á atvinnuleysisskrá að miklu leyti. Ríkisútgjöldin halda áfram en hinar hörmulegu afleiðingar atvinnuleysis koma þá fram sem ég tel vera mjög slæmt. Ég held því að menn ættu að hafa það í huga að fara frekar í hlutauppsagnir en algerar uppsagnir einstakra starfsmanna en sú er hættan ef menn fara í flatan niðurskurð. Það er stóra hættan ef menn fara í flatan niðurskurð.

Það frumvarp sem við ræðum hér er angi af þessu. Mér leist nokkuð vel á það þegar það kom fyrst fram, að taka ætti í burtu tvær greinar sem fjalla um fagstjórnendur. Það er verið að segja það í lögum að yfirlæknar sérgreina og sérdeilda innan heilbrigðisstofnana beri faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyra. Af hverju í ósköpunum stendur þetta í lögum? Deildarstjórar hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana bera faglega ábyrgð o.s.frv. Ég var mjög hlynntur því að þetta væri tekið burt til að uppbygging skipuritsins yrði meira í hendi þeirra sem stjórna stofnuninni og til að hægt væri að laga það að litlum og stórum stofnunum. Skipuritið er svo niðurnjörvað að maður gæti haldið að á minnstu stofnunum þyrfti að vera deildarstjóri hjúkrunar og yfirlæknir o.s.frv. Ég var því mjög ánægður með frumvarpið eins og það kom fram í þá veru að reyna að gera skipurit heilbrigðisstofnana ekki svona stíft. Ég er alveg sammála hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og þótti gott að heyra þegar hún sagði að forstjóri flugfélags þyrfti ekki endilega að vera flugmaður. Hann lýtur að sjálfsögðu skipuriti og það er einhver yfir honum sem segir honum: Nú átt þú að fljúga þessa leið á þessum tíma og þá bara hlýðir hann. Eins er með flugfreyjur og aðra í stofnuninni. Auðvitað ber þetta fólk faglega ábyrgð á því. Flugmaðurinn ber faglega ábyrgð á því að flugvélin pompi ekki niður eða eitthvað slíkt. Það er einfaldlega innbyggt í skipuritið að menn beri faglega ábyrgð.

Í dag sjáum við frumvarpið eftir 2. umr. og búið er að taka allt bit úr því. Fella átti niður þær tvær greinar sem ég nefndi hér en það er hætt við það. Það á sem sagt að vera smákóngaveldi út um allt í heilbrigðisþjónustunni sem gerir mjög erfitt um vik að skipuleggja eða hagræða eða gera nokkurn skapaðan hlut. Þetta fólk getur sagt: Samkvæmt lögum á ég að vera yfirmaður yfir þessari stofnun með þrjá undirmenn, einn undirmann eða engan undirmann. Þetta dregur allt bit úr því sem menn ætluðu að gera. Þessi þrískipting skipuritsins — ef ég ætti heilbrigðisstofnun mundi ég aldrei reka hana svona að hafa hjúkrunina sér, lækningarnar sér og svo hitt starfsfólkið sér. Það er ekkert samráð þarna á milli. Menn mega ekki vinna milli þessarar þrískiptingar. Læknirinn má ekki gefa sprautu. Þó að sprautan sé á borði við hliðina á honum og sjúklingurinn í rúminu fyrir framan hann verður læknirinn að kalla á hjúkrunarfræðing. Þetta er oft alveg fáránlegt. Verkaskiptingin í heilbrigðisþjónustunni er fáránlega þröng og það kostar óhemjufé. Menn ættu að fara að huga að því að reyna að laga þetta, líka þær stéttir sem þarna vinna og kannski helst þær. Þær ættu að sjá hvar fjármunirnir gusast út.

Svo kemur frumvarpið og ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Það átti að fella niður 1. og 2. mgr. 10 gr., það er hætt við það. Svo átti að fella niður 2. mgr. 17. gr. og það er gert óbeint með því að setja í staðinn ákvæði sem er í rauninni — ég veit ekki hvað ég á að kalla það, á ég að segja, frú forseti, bla bla? Það liggur við. Það stendur í ákvæðinu: „Forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skulu hafa samráð við faglega yfirmenn í heilsugæslunni þegar sérmál hennar eru til ákvörðunar“ — nema hvað, frú forseti? Nema hvað? Hvernig reka menn fyrirtæki? Ætla menn að fara að taka ákvarðanir þvers og kruss og hafa ekkert samráð við starfsmennina? Ætlar kannski stjórnin að vera í New York eða einhvers staðar allt annars staðar? Ætlar hún ekki að ræða neitt við fólkið sem hún er að stjórna? Ég hef aldrei heyrt annað eins, að hafa eigi samráð við þá starfsmenn sem ákvörðunin varðar — nema hvað? Ég mundi aldrei nokkurn tíma reka fyrirtæki nema einmitt hafa samráð við þá starfsmenn sem ákvarðanirnar varða. Hvort menn fara eftir því er önnur saga en að sjálfsögðu gerir maður það. En það er sett inn eitthvert tómt ákvæði í staðinn fyrir 2. mgr. 17. gr. sem sumir hafa túlkað á þann veg að á hverri heilsugæslustöð skuli vera yfirhjúkrunarfræðingur o.s.frv. Af því að hafa á samráð við yfirlækni og yfirhjúkrunarfræðing hafa sumir ályktað að á hverri einustu heilsugæslustofnun eigi að vera yfirhjúkrunarfræðingur og yfirlæknir.

Mér þykir mjög miður hvernig þetta mál hefur þróast. Að nefndin skuli hafa komið í bakið á heilbrigðisráðherra með þessum hætti og dregið allt bit úr því máli sem við höfum hér í höndunum. Það verður að hagræða, það verður að ná niður launakostnaði. Gerð var tilraun til þess af hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. nefnd kemur í bakið á henni og tekur þá tilraun til baka.