138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þekkir mætavel að við kölluðum eftir hvaða stefna væri í heilbrigðismálum sem kemur fram í fjárlögunum. Hv. þingmaður getur ekki klifað á því að ekki hafi verið farið í kragaverkefnið. Þetta snýst ekki um það. Við vitum alveg hvað er búið að gera hvað varðar St. Jósefsspítalann, við fengum kynningu á því að þar er búið að segja upp alveg gríðarmörgum sérfræðingum og þar er núna í rauninni partur af þeirri þjónustu sem var áður. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það sem við báðum um í desember, hvernig menn ætla að ná fram hagræðingunni í sérfræðilækningunum. Við höfum séð í fréttum að búið er að segja upp samningum við sjálfstæða lækna og þeir ekki endurnýjaðir sem er ódýrasta formið af heilsugæslunni en við höfum ekki rætt það í nefndinni. Svo sannarlega höfum við ekki séð neina stefnumótun eða stefnu heilbrigðisráðuneytisins til næstu ára, nákvæmlega ekki neina. Það dugar ekki að koma og segja að það sé ekki farið í kragaverkefnið. Það hefur alveg komið fram. Það er heldur ekki farið í sameiningarnar úti á landi sem lagt var upp með ef undan er skilið Vesturland. Gott og vel. Það er allt í lagi. Hvað ætla menn þá að gera í staðinn? Er það bara þannig að menn ætla að halda sig við flatan niðurskurð eins og var lagt upp með í þessum fjárlögum? Er það það sem menn eiga að gera? Er það stefna ríkisstjórnarinnar, flatur niðurskurður? Ég kalla að vísu eftir því þó að það sé flatur niðurskurður að menn útskýri hvernig þeir ætla að ná niður kostnaðinum hjá sjúkratryggingunum, sérgreinalækningunum. En ef ég skil hv. þingmann rétt er þetta bara flatur niðurskurður. Önnur stefna er ekki í gangi en það breytir því ekki að við þurfum samt sem áður að fara yfir framkvæmd þessara fjárlaga.