138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef ekki mikið með þessar fundadagsetningar hjá Evrópusambandinu að gera og ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það atvikaðist svo að til standi að halda fund 17. júní. Þeir hafa sennilega ekki verið mjög uppteknir af því hvað sá dagur þýddi í þessu samhengi. Ég hygg að það væri þá frekar utanríkisráðherra sem gæti svarað spurningum hv. þingmanns um það hvernig það móverk gengur fyrir sig. (Gripið fram í.) Meiri hluti Alþingis samþykkti að leggja þessa umsókn inn og láta þar með á það reyna í viðræðum hvaða samningum hægt væri að ná og það verður svo þjóðin sem á síðasta orðið í þeim efnum. (Gripið fram í: … rétt.)

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ástæða er til að hafa áhyggjur af þróun mála í Evrópu. Það þyrftum við að hafa algerlega óháð því hvort hér væri umsóknarferli í gangi eða ekki. Evrópa er einu sinni okkar langmikilvægasta markaðssvæði, bæði á sviði útflutnings og innflutnings, og hagvaxtarmöguleikar og framþróun hér er mjög tengd því hvernig gengur í Evrópu. Þess vegna er það áhyggjuefni að þar eru blikur á lofti og óróleiki, hvort sem við horfum á gjaldmiðilsstöðuna eða einfaldlega viðgang í hagkerfum okkar stóru markaðslanda í Evrópu. Ég held að við hljótum þar af leiðandi að hafa af því áhyggjur og það væri afar óskynsamlegt og illa ígrundað að vera með einhverja þórðargleði yfir því, burt séð frá afstöðu manna til Evrópusambandsins, hvort hyggilegt er að ganga í það eða ekki, að ástand mála er þar ótryggt og jafnvel víða versnandi.

Að sama skapi held ég að við ættum ekki að vera of beygð yfir þó þeirri stöðu sem við erum smátt og smátt að ná, að koma á jafnvægi í okkar hagkerfi og það er vöxtur landsframleiðslu annan ársfjórðunginn í röð. Menn geta auðvitað gert lítið úr slíku ef þeir vilja eins og ég sé að sumir reyna, sumir fjölmiðlar, en það er sá viðsnúningur sem það er vísbending um sem er okkur afar dýrmæt. (Gripið fram í: Hvaða svör eru þetta?) Ég var búinn að svara spurningunni, hv. þingmaður, og ég ræð því hvernig ég nota restina af ræðutíma mínum, hv. frammíkallandi.