138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þessari atkvæðagreiðslu finnst mér rétt að ítreka að kvöldfundir eru að sjálfsögðu ekki óeðlilegur þáttur í störfum þingsins á síðustu dögum fyrir hlé, það er ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar er alveg hárrétt, sem fram kom í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að samhliða því að við föllumst á að funda lengur dag eftir dag og kvöld eftir kvöld er ekki óeðlilegt að gerð sé krafa um það að skipulagi þingstarfa sé hagað í samræmi við einhverja forgangsröð, að reynt sé að komast að einhverri niðurstöðu um það hvaða mál er nauðsynlegt að klára áður en þingið fer í hlé. Ef ekki er útlit fyrir að þingið klári á þeim fáu dögum sem eftir eru er mikilvægt að það liggi líka fyrir ef ákvörðun forseta og forsætisnefndar er sú að funda lengur en til 15. júní eins og (Forseti hringir.) áður var gert ráð fyrir. Ef ekki á að hætta 15. júní höfum við meira svigrúm og forgangsröðunin þarf ekki að vera eins stíf. En ef við ætlum að klára á þriðjudaginn í næstu viku (Forseti hringir.) verðum við að forgangsraða rosalega grimmt.