138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar hefur bygging nýs sjúkrahúss verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Fyrir um fimm árum var efnt til alþjóðlegrar skipulagssamkeppni um nýtt háskólasjúkrahús og lauk henni um haustið sama ár. Í framhaldinu, á árunum 2006–2008, var unnin ítarleg þarfagreining, tæknigreining og unnið að endanlegri útfærslu verðlaunatillögunnar. Síðan var, eftir fall bankanna, farið yfir áætlanir og hönnunarforsendur nýs háskólasjúkrahúss og haustið 2009 var undirbúningur framkvæmdarinnar hafinn með því að skapa verkefninu formfestu og sjá um undirbúning hönnunarsamkeppni og ýmis samskipti við aðila sem að því koma. Skipuð var forvalsnefnd sem mat umsóknir um þátttöku í forvali frumhönnunarsamkeppni og fengu fimm stigahæstu teymin að taka þátt í þeirri samkeppni sem lýkur í júní. Meginmarkmiðið er að ljúka sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu þannig að starfsemi Landspítala flytjist öll á Hringbraut í aðstöðu sem nægir til að uppfylla það markmið.

Nú fer starfsemi Landspítalans fram á 17 mismunandi stöðum og í 100 húsum á höfuðborgarsvæðinu eins og fram hefur komið og eru flest húsanna hönnuð fyrir tugum ára og fyrir sjúkrahússtarfsemi sem er allt annars eðlis en nú er. Núverandi húsnæði er talið bæði viðhaldsfrekt og dýrt í rekstri og skortir sveigjanleika til að unnt sé að laga bygginguna að breytilegum þörfum.

Bygging nýs Landspítala er talin fjárhagslega hagkvæm og einnig mikilvæg fyrir framtíðarheilbrigðisþjónustu í landinu. Fram kemur í öllum áætlunum, gögnum og umræðum um bygginguna að með henni sé verið að tryggja aukin gæði og öryggi þeirrar þjónustu sem Landspítalinn veitir nú þegar. Í áætlununum og gögnunum sem þær byggja á er ekki gert ráð fyrir þeirri þjónustu sem veitt er t.d. á kragasjúkrahúsunum, enda þyrfti, til að svo hefði verið, að meta áhrifin á þau samfélög sem eru í kringum kragasjúkrahúsin og einnig áhrifin á rekstur þeirra.

Í kostnaðargreiningu er gert ráð fyrir að sameining spítalans á einum stað miðað við núverandi starfsemi geti gefið hagræðingu sem staðið geti undir leigugreiðslum á nýju húsnæði. Þetta er mikilvæg forsenda ásamt þeirri að bæta heilbrigðisþjónustuna. Í áætlunum er talið að hagræðingin skili sér fljótt með tilkomu nýrrar byggingar og breytingum á skipulagi og starfsemi. Auk þess skilar nýbyggingin miklum ávinningi fyrir heilbrigðisþjónustuna í formi bættrar aðstöðu fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn, ásamt færi á að taka upp nýja tækni og aðferðir og gefur möguleika á auknum sveigjanleika á skipulagi starfseminnar. Gert er ráð fyrir að í bygginguna fari samtals 2.644 ársverk á árunum 2010–2016 og er hún eitt af þeim verkum sem samkomulag var um í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna.

Ársverkin eru okkur mikilvæg og þar sem framkvæmdin er talin fjárhagslega hagkvæm og skiptir einnig máli fyrir framtíðarheilbrigðisþjónustu í landinu er ástæða til að mæla með því að í hana verði ráðist. Framkvæmdin er jafnframt talin henta þeim verkefnum opinbers hlutafélags eins og lagt er til með frumvarpinu sem annast undirbúning, hönnun, byggingu og fjármögnun spítalans. Þær girðingar sem lagt er til að stoppað verði við til að skoða framgang málsins og endurmeta áætlanir og möguleika ríkisins til að standa undir leigunni draga úr áhættu sem slíku verkefni getur fylgt fyrir ríkisstjórn.