138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:39]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég bar hérna upp spurningar. Í máli mínu áðan kom fram að Alþingi hefði orðið við óskum stjórnarandstöðunnar um að semja við viðkomandi lögfræðistofu. Ég gerði engum upp að hafa samið við hana neitt sérstaklega, það var Alþingi sem gerði það enda greiddi Alþingi reikninginn (Gripið fram í: Sagðir annað áðan.) upp á 22 millj. kr. með afslætti. Það er tilefni spurningar minnar. Það var algjörlega ljóst að viðkomandi lögfræðistofa hafði bein tengsl hingað til lands og inn í stjórnarandstöðuna. (Gripið fram í.) Það leyndi sér ekki neitt. (Gripið fram í.) Hvað er þá óeðlilegt við að spyrja hvort einhverjir hagsmunir kynnu að hafa skarast á Alþingi og þá sérstaklega inn í stjórnarandstöðuna? Það var tilefni fyrirspurnar minnar hér og umræðu um þetta mál. Það er akkúrat ekkert óeðlilegt við það, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Þú kannt ekki að skammast þín.)