138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Uppákoman áðan þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason réðst að hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni er það aumkunarverðasta sem ég hef séð á því ári sem ég hef setið hér, og fyrst og fremst honum til mikillar minnkunar og skammar. Ég hélt hins vegar að hann væri maður að meiri og mundi biðjast afsökunar því að menn missa kannski út úr sér orð í hita leiksins en hann er greinilega ekki maður til þess.

Mig langar líka að rifja upp hvers vegna var verið að ræða við lögmannsstofuna Mishcon de Reya í þessu æsiferli. Það kom nefnilega í ljós að hluta af skýrslu Mishcon de Reya hafði verið stungið undir stól fyrir einn mesta og mikilvægasta fundinn þegar hæstv. utanríkisráðherra átti að hitta forustumenn Breta. Út úr þeirri skýrslu var tekið að Íslendingar hefðu mjög sterk vopn í höndum sem gætu krafið bresk stjórnvöld um skaðabætur vegna setningar hryðjuverkalaganna.

Þegar þetta var rætt við hæstv. utanríkisráðherra á þinginu kom hann algjörlega af fjöllum og sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um að gera það. Mér er það mjög minnisstætt (Forseti hringir.) að mjög margir þingmenn efuðust um að hæstv. utanríkisráðherra segði satt (Forseti hringir.) en þessum kafla úr skýrslunni var stungið undan áður en hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) fékk kynningu á henni.