138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

afbrigði um dagskrármál.

[13:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að taka efnislega afstöðu til þessa máls sem við greiðum hér atkvæði um að veita afbrigði fyrir, en ég kem hér upp enn og aftur til að ítreka það sem augljóst er og við blasir, að hér eru ekki réttu vinnubrögðin viðhöfð þegar aðeins þrír dagar eru til þingloka að við séum enn þá að veita afbrigði fyrir málum sem ríkisstjórnin stefnir að því að klára fyrir þinglok. 1. umr. er ekki hafin og það er það sem við erum að veita afbrigði fyrir. Það sér hver heilvita maður að þetta eru engin vinnubrögð. Ég hvet hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að við getum gert það sem við höfum kallað eftir í umræðum á þinginu, ítrekað, forgangsraðað þeim málum sem brýn eru og bráð nauðsyn er á að séu kláruð fyrir þinglok, en að önnur mál séu sett til hliðar og við getum unnið betur í þeim í sumar og klárað þau á septemberþinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)