138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[14:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi fá tækifæri til að ræða nánar í sambandi við þetta mál sem ekki gafst tími til að ræða við hæstv. dómsmálaráðherra í stuttum andsvörum. Ég þakka fyrir þau svör sem þar komu fram, bæði um efnisatriði þessa tiltekna frumvarps og eins það sem auðvitað stendur í nánu samhengi við þetta, þótt það sé ekki á dagskrá hér í dag, framsalsmálin og aðild að alþjóðlegum handtökuskipunum og framsalssamningum. Við getum sennilega geymt þá umræðu frekar þar sem hún tengist ekki beint efni þessa máls. Það hefur ekki komið tækifæri í þinginu til að spyrja hæstv. ráðherra upp á síðkastið út í evrópsku handtökuskipunina sem hún lýsti réttilega þannig að það ríki mjög mikið gagnkvæmt traust milli aðildarríkjanna. Ef hún hefur tækifæri til á eftir væri mér akkur í að hún gerði örstutt grein fyrir því sem mér skilst að hafi af Íslands hálfu löngum verið helsti þrándur í götu, hindrun gegn því að Ísland gæti skilyrðislaust orðið aðili að þessum samningi. Þegar Ísland hefur staðið í viðræðum við Evrópusambandið um hugsanlega aðild hafa ákveðin atriði staðið út af borðinu sem hafa lotið að því að við hér á landi höfum gert ákveðna fyrirvara við þennan þátt sem við getum sagt að sé þetta gagnkvæma traust.

Ég ætla ekkert að biðja hæstv. dómsmálaráðherra á þessum vettvangi að svara því, en hið skilyrðislausa traust í hinni evrópsku handtökuskipun hefur stundum valdið mér persónulega nokkurri umhugsun vegna þess einmitt að aðildarríki Evrópusambandsins og aðildarríki þar með þessa samnings eru fjölmörg og fer fjölgandi. Réttarkerfi þeirra eru mismunandi og löggjöf á einstökum sviðum er mismunandi, þar á meðal refsilöggjöf. Þegar ég hef velt fyrir mér þessum málum hefur svolítið vafist fyrir mér hvort það væri rétt að stíga þetta skref til fulls. Þó að ég viðurkenni fúslega að í sjálfsagt miklu fleiri tilvikum væri mikið hagræði af því að við ættum aðild að evrópsku handtökuskipuninni má hugsa sér ákveðin tilvik þar sem t.d. íslensk yfirvöld yrðu skyldug til að framfylgja dómsúrskurðum í löndum innan Evrópusambandsins sem kunna að hafa mjög ólíka refsilöggjöf og ólíkt dómskerfi. Þannig gætu komið upp tilvik þar sem íslenskum yfirvöldum bæri samkvæmt þessum samningi að framfylgja ákvæðum og ákvörðunum af þessu tagi sem aldrei yrðu teknar hér á landi miðað við íslenska refsilöggjöf og íslenskt dómskerfi. Þetta er til umhugsunar og ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að koma örlítið inn á þetta, einkum út frá því sem ég nefndi í upphafi um það hvaða fyrirvara Ísland hefði haft í þessum viðræðum.

Hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir því að efnisreglurnar sem finna má í þessum spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna væru komnar að mestu ef ekki öllu leyti inn í íslenskan rétt. Það er þróun sem við höfum fylgst með á vettvangi þingsins, við höfum gert hér ákveðnar breytingar á síðustu árum sem hafa haft það að markmiði að laga íslenska refsilöggjöf að því sem samræmist þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Er það vel. Breytingin sem felst í þessu frumvarpi er þar af leiðandi miklu minni og einfaldari en ella væri.

Við höfum áður staðið frammi fyrir fullgildingu alþjóðasamninga sem hafa kallað á mun víðtækari breytingar á einstökum lagaákvæðum hér á landi sem stundum hafa tafið framkvæmd málsins og framvindu. Það hefur stundum einmitt kallað á skiptar skoðanir í þinginu þegar kannski fyrst og fremst hefur verið deilt um það hvernig ætti að innleiða ákvæði slíkra samninga í íslenskan rétt. En við stöndum ekki frammi fyrir því í þessu tilviki. Ég á því von á því að þetta mál hljóti tiltölulega greiða leið í gegnum þingið og ætti ekki að valda miklum ágreiningi. Ég sé ekki efnisforsendur til þess.

Hið sama á að sjálfsögðu við um þá ágætu þingsályktunartillögu sem hæstv. utanríkisráðherra mun mæla fyrir á eftir og er samhangandi þessu máli. Ég væri þakklátur hæstv. dómsmálaráðherra ef hún gæti aðeins brugðist við því sem ég sagði í upphafi, fyrst og fremst um evrópska handtökusamninginn. Að lokum langar mig að beina einni spurningu til hæstv. ráðherra og hún varðar það sem hefur stundum valdið mér umhugsun, hvort tilvísun eins og felst í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. þar sem vísað er til háttsemi sem greint er frá í alþjóðlegum samningi sem Ísland á aðild að, sé nægilega traust lagasetning. Er verið að setja inn í löggjöfina refsiheimild með nægilega skýrum hætti þegar þetta er gert? Ég held að í þessu tilviki sé ekki um að ræða nein vandamál vegna þess að efnisreglurnar eru komnar inn í önnur ákvæði laganna eins og ráðherra gat um, en ég velti fyrir mér almennum sjónarmiðum dómsmálaráðherra um það hvort það sé nægilegt og þá eiginlega hvaða sjálfstæðu merkingu það hafi að vísa til alþjóðlegra samninga í almennum hegningarlögum með þessum hætti.