138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mikilsvert mál og ég ætla að halda mig við málefnalega umræðu um það.

Að sjálfsögðu koma upp ýmis álitamál þegar dregin eru mörk í máli af þessu tagi. Ég tel að það sé gert með mjög skýrum og einföldum hætti. Ég er ósammála því að þetta sé flókin aðgerð. Þetta eru tvö einföld bráðabirgðaákvæði sem bætast við tekjuskattslögin. Þau ganga frá því að allar skilmálabreytingar og allt sem flokkast sem slíkt kemur ekki við sögu. Það er gert skýrt í lagatextanum. Þetta gengur frá því að hin lögbundnu úrræði og almennt viðurkenndu úrræði, sem t.d. lánastofnanir hafa sameinast um að bjóða upp á í gegnum samstarf sitt í Félagi fjármálafyrirtækja, eru einnig undanþegin. Þetta tekur hins vegar á þeim tilvikum þegar menn í frjálsum samningum fá skuldaniðurfellingar, í sumum tilvikum án þess að gerðar séu kröfur til þeirra um að þeir leggi aðrar eignir í púkkið. Við vitum að í einhverjum málum og hjá sumum lánastofnunum hefur þannig verið staðið að málum. Þetta tekur utan um þau mál.

Við skulum hafa í huga í þessu efni samanburðinn við hinn hópinn sem enga slíka ívilnun fær. Þeir sem liggja rétt undir 110% veðsetningu á íbúðarhúsnæði sínu fá ekki eftirgjöf. Þeir þurfa að fara í hin þvinguðu úrræði eða er gert að leggja allar eignir sínar í púkkið áður en þeir fá fyrirgreiðsluna. Þannig að við verðum líka að hafa jafnræði í huga. Við verðum að hafa í huga að finna leið sem er sanngjörn og réttlát og kemur til móts við verkefnið án þess að varpa alveg fyrir borð sjónarmiðum um jafnræði og samanburð við þær aðstæður sem við búum nú við. Það er ekki einfalt mál. En ég hygg að menn geti orðið sammála um að þegar þetta er betur skoðað þá þurfi auðvitað að hyggja að þeim sjónarmiðum.