138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

aðild Íslands að ESB.

[12:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég veit ekki hvaða orðspor fer af hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, en a.m.k. sýnist mér af lestri hans áðan að hann taki ekki vel eftir þeim texta sem fyrir hann er borinn. Ef hv. þingmaður læsi betur þá frétt sem hann vísar til sæi hann í fyrsta lagi að það er rangt hjá honum að þessi tiltekni sérfræðingur segi að það séu engar líkur á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hann segir að það séu litlar líkur og tiltekur sérstaklega að miðað sé við núverandi stöðu á Íslandi gagnvart Evrópusambandinu. Þá vil ég rifja upp fyrir hv. þingmanni að skömmu fyrir febrúarbyltinguna var 80% stuðningur við umsókn. Síðustu 10 árin hefur í 16 af 18 skoðanakönnunum Samtaka iðnaðarins verið meiri hluti fylgjandi umsókn. Þetta breyttist þegar við lentum í Icesave-deilunni þar sem sterkar Evrópuþjóðir beittu sér gegn afgreiðslu okkar mála innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar við verðum búin að semja og komum heim með samning sem hrekur allt það sem þessi hv. þingmaður heldur hér fram muni þjóðin samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Það er hugsanlegt að ég hafi rangt fyrir mér en ég held ekki.

Þegar hv. þingmaður talar um að þessi sérfræðingur leiði að því líkum að Evrópusambandið ásælist auðlindir er hann m.a. að tala um reynslu okkar af stjórnun endurnýjanlegra auðlinda. Það er alveg hárrétt að hann talar um að það sé eftirsóknarvert fyrir Evrópusambandið að Ísland gangi í það vegna þess að við liggjum algjörlega á norðurslóðum. Það skiptir máli fyrir Evrópusambandið, m.a. í umhverfislegu tilliti, að geta fylgst með hlýnun og bráðnun.

Hins vegar undirstrika ég að öndvert við það sem þessi ágæti sérfræðingur (Forseti hringir.) segir hefur þýska þingið nýlega samþykkt ályktun þar sem það beinlínis leggur til að Ísland (Forseti hringir.) njóti stuðnings Þjóðverja við að ganga inn vegna þess að (Forseti hringir.) það telur að Ísland sé vel til þess fallið vegna núverandi regluverks.