138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst út af seinna atriðinu um endurskoðendur, sem ég ræddi hér í gær, þá er ég alveg sammála hv. þingmanni um markmiðið og hef oft rætt það, ekki eingöngu í tengslum við þetta mál heldur mjög oft og löngu fyrir hrunið, að við ættum að skoða sérstaklega hlutverk endurskoðenda og að sama fyrirtæki ætti ekki að vera í ráðgjöf og endurskoðun, sem er mjög mikilvægt hlutverk.

Forsvarsmenn endurskoðendanna sjálfra bentu á og töldu að ef við færum þá leið sem við erum að fara væri þeim ekki heimilt að skrifa upp á og staðfesta árshlutauppgjör, skattframtöl og annað slíkt og þá þyrftu aðrir endurskoðendur að koma að því. Endurskoðendur verða almennt sjálfir að endurskoða og byggja á eigin vinnu en geta ekki byggt á vinnu annarra endurskoðenda. Þetta voru athugasemdir endurskoðendanna sjálfra og ég tel að við séum ekki búin að fullvinna þetta.

Síðan kom minnisblað frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti sem sagði: Þetta er bara misskilningur og þar við situr. Við höfum ekki farið almennilega yfir það í hv. nefnd og það gæti þýtt mistök, ég held að allir sjái það.

Varðandi bankaskattinn, virðulegi forseti, og einkavæðingu hagnaðar skulum við samt hafa í huga að af þessum hagnaði bankanna fengum við umtalsverðar skatttekjur á sínum tíma og notuðum þær í ýmis samfélagsleg verkefni eins og við þekkjum en það er kannski aukaatriði. Þessa bankaskattshugmynd hef ég séð í umræðunni í Bretlandi og ég held að þetta sé bara eitt af því sem við þurfum að skoða og ég held að þess vegna sé einmitt mikilvægt að við skoðum líka hvað er að gerast annars staðar. Okkur vantar fjármuni í ýmsa hluti og ég lít svo á að þetta sé bara eitt af því sem er mikilvægt að skoða í því heildarsamhengi. Þetta verður ekki tekið frá öðru því sem við erum að ræða og ég er bara ánægður með að hv. þingmaður sé að velta upp hugmyndum, það skiptir mjög miklu máli.