138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[21:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða þarft og gott mál að mínu viti þar sem fjallað er um almennar reglur, í raun almenna löggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Það kemur í ljós og sést ágætlega á þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram á nefndaráliti iðnaðarnefndar að full þörf var á að fara mjög vandlega yfir þetta mál og þetta frumvarp í nefndinni og bera breytingartillögurnar það með sér að nefndin og þeir sem fyrir hana komu töldu nauðsynlegt að eyða góðum tíma í að fara yfir þetta mál. Það ber að þakka að ágætur tími var gefinn til þess og vil ég þakka nefndarformanni og öðrum nefndarmönnum fyrir þá góðu vinnu sem í þetta var lögð.

Ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara og ætla aðeins að reifa hér hvers vegna og hvaða fyrirvara ég geri. Ég styð málið sem slíkt og ætla ekki að fara aftur í gegnum nefndarálitið. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Skúli Helgason gerði það ágætlega, en það eru tvö, þrjú atriði sem mig langar að minnast á sem — hvernig á að orða það, frú forseti? — ég hefði kannski viljað sjá með aðeins öðrum hætti en gefa ekki ástæðu til að tefja málið enn frekar. Eða tefja málið, ekkert enn frekar, það hefur ekkert verið tafið, það er betra að hafa það á hreinu. Nú glotta hv. þingmenn sem voru með okkur í nefndinni.

Þetta er heildstæð löggjöf, eins og fram hefur komið, sem er mjög mikilvægt. Lögð hefur verið áhersla á að þeir sem hingað vilja koma og fjárfesta viti nokkurn veginn að hverju þeir ganga. Þó var bent á ákveðin atriði sem ekki er tekið á beint í þessu frumvarpi heldur vísað í aðra átt og er ég þá m.a. að ræða um þann skattalagaþátt sem farið var yfir áðan þar sem m.a. er rætt um tekjuskatt, að undanþága frá tekjuskatti verði skoðuð vandlega við endurskoðun laganna árið 2013. Í máli sérfræðinga sem komu fyrir nefndina kom fram að þetta væri eitt af því sem skipti gríðarleg miklu máli þegar samanburður milli landa væri gerður og var m.a. vitnað til Kanada í því efni. Hins vegar var ákveðið að taka það ekki inn í þetta frumvarp og, eins og ég sagði hér fyrr, var vísað til þess að þetta yrði endurskoðað við endurskoðun laganna árið 2013.

Nú kann að vera að hægt sé að bregðast við þessum þætti með einhverjum öðrum hætti, m.a. í gegnum skattafrumvörp fjármálaráðuneytis eða eitthvað slíkt, en þetta er alla vega mikilvægur þáttur sem við í raun brugðumst ekki við með nógu afgerandi hætti. Vonandi verður ráðin bót á því síðar.

Í öðru lagi er fjallað um að gildissvið laganna nái ekki til fjárfestinga í fjármálastarfsemi. Ég hef fullan skilning á því að mjög freistandi sé að nefna það í þessu frumvarpi, hins vegar taldi ég að það hefði einfaldlega mátt sleppa þessari setningu, þ.e. að taka það ekki sérstaklega út, en þetta var engu að síður ákveðið og það stendur. Færa má rök fyrir því að þetta eigi að vera þarna inni og líka því að þetta eigi ekki að vera þarna inni. Það má kannski segja að þetta sé ákveðið svar við þeim umræðum sem eru í samfélaginu, sem er ekkert óeðlilegt, en hins vegar velti ég því fyrir mér hvort rétt sé að senda þau skilaboð út að fjármálastarfsemi eða fjárfestingar eigi ekki þarna við. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvaða tækifæri eru í þeim geira og því er spurning hvort eigi að útiloka þau.

Í þriðja lagi er töluvert rætt um siðferði og þau viðmið, sem ég fer aðeins yfir á eftir, sem á að nota þegar nefndin fjallar um umsóknir um ívilnun. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta en engu að síður vil ég segja að hér erum við með mjög góðan kafla um siðferði og hvað menn mega gera og hvað ekki. Við erum nýbúin að samþykkja ívilnanafrumvarp vegna gagnavers suður með sjó, í því frumvarpi og nefndaráliti var sérstaklega tekið á ákveðnum siðferðilegum þáttum sem menn vildu svara. Í raun má velta fyrir sér hvort ekki hefði átt að ræða þessi tvö frumvörp saman en ekki þótti ástæða til þess. Hitt málið er frágengið, þetta mál þurfum við að afgreiða núna fyrir aðra þannig að ég ætla ekki að orðlengja það frekar. Ég vildi bara koma þessu að.

Að lokum langar mig aðeins að nefna 17. og 18. gr. frumvarpsins. Þær hanga mjög náið saman í V. kafla, vegna þess að þar er rætt um sérstaka þriggja manna nefnd sem iðnaðarráðherra skipar til að fara yfir ívilnanir. Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir gögnum o.s.frv. Við 18. gr. er rætt um arðsemisútreikninga og aðkomu Fjárfestingarstofu vegna útreikninganna og verð ég að segja að þrátt fyrir að svo sé, mun þessi nefnd hafa — kannski eðlilega, það getur vel verið að það sé eðlilegt — gríðarleg völd og þurfa að leggja mikið sjálfstætt mat á þær umsóknir, þótt hún muni að sjálfsögðu hafa mjög góð gögn sér til ráðgjafar. Þetta verður ráðherraskipuð nefnd, þannig að í raun mun mjög pólitískt apparat fjalla um þetta.

Ég vona að sjálfsögðu að þau lög sem hér er fjallað um verði samþykkt. Þetta eru tímamótalög að mínu viti. Við getum haft alls konar skoðanir á einstökum þáttum þeirra en í heildina skiptir þó mestu, frú forseti, að við erum að reyna að setja hér ramma sem fjárfestar geta gengið að, um ákveðin skilyrði sem þeir þurfa að uppfylla. Enn er eitthvað sem þarf vitanlega að semja um og slíkt, en það að geta sýnt umheiminum og fjárfestum fram á að hér eru ákveðin tækifæri, almennar reglur, það er mjög til bóta. Ég fagna því að þetta frumvarp sé lagt fram og mun að sjálfsögðu styðja það.