138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[11:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Stundum er sagt að hægara sé um að tala en í að komast. Margt hefur verið sagt um það hvernig haldið var á umgjörð fjármálakerfisins meðan Sjálfstæðisflokkurinn réði hér. Sérstaklega var það gagnrýnt að við skyldum ekki hafa tryggt dreifðara eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Í þessu frumvarpi er ekki tekið á dreifðu eignarhaldi. Þegar ríkisstjórnin fær tækifæri til að fylgja eftir athugasemdum sínum gerir hún það ekki um það atriði. Einnig hefur það verið gagnrýnt mjög hvernig eigendur fjármálafyrirtækjanna stunduðu viðskipti við þau sjálf. Ekki er tekið almennilega á því máli í þessu frumvarpi. Fjölmörg önnur atriði sem mest hafa verið til umfjöllunar eru að fara í nefnd sem við höfum mælt fyrir undir umræðu um þetta mál að þurfi að komast á laggirnar og taka þessi stóru álitamál til skoðunar. (Forseti hringir.) Þegar öllu er á botninn hvolft hafði ríkisstjórnin sjálf ekki svör við stóru álitaefnunum sem hún vildi meina að hefðu verið á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.