138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Iðnaðarmálagjaldið er ákveðin prósenta, 0,08% af veltu, og það fer til skilgreindra verkefna sem Samtök iðnaðarins framkvæma. Samt taldi og dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu að þetta væri mannréttindabrot.

Í gær samþykkti Alþingi lög um fræðslusjóði með atkvæði hæstv. ráðherra. Þar er aðilum sem standa utan félaga gert að greiða til fræðslusjóða sem eru í umsjá og á forræði einhverra samtaka sem þeir eru ekki aðilar að og þar er ekki ákveðið hvað upphæðin er mikil heldur semja einhverjir óskyldir aðilar um þetta. Það er ekki eitt orð um hvað gera á við þessa peninga, ekki orð, bara nafnið, fræðslu-eitthvað, og ekki meir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem greiddi þessu frumvarpi atkvæði í gær, hvernig þetta samrýmist dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í apríl um að iðnaðarmálagjaldið væri mannréttindabrot. Ríkisstjórnin er hér að bregðast við því. Þessi sama hæstv. ríkisstjórn fékk í gær samþykkt lög frá Alþingi um enn þá verra dæmi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi hugleitt það þegar hún greiddi atkvæði í gær að hún væri að samþykkja lög sem hugsanlega brytu mannréttindi.