138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar kom hv. þingmaður inn á mjög athyglisverðan punkt, niðurgreiðslur og styrki til fyrirtækja af ýmsum toga, fyrirtækja og fyrirtækjasamstæða, og einnig til samtaka. Það gjald sem við erum að leggja af, iðnaðarmálagjaldið, er í reynd styrkur ríkisins til Samtaka iðnaðarins og um leið styrkur til iðnaðarins þó að hann sé tiltölulega veikur, 0,08% af veltunni. Þá leiðir maður hugann að styrkjakerfi Evrópusambandsins sem íslenskur iðnaður og útflutningur þarf að keppa við og innflutningur sömuleiðis. Fyrirtæki sem eru í samkeppni við innflutning frá Evrópusambandinu þurfa í raun að keppa við styrkjakerfi Evrópusambandsins. Ég þekki það ekki út í hörgul en ég reikna með að það sé umtalsvert og hef heyrt að það sé ansi víðtækt og ansi mikið, stórar upphæðir, og þess vegna tek ég alveg undir með hv. þingmanni, það þarf að skoða það þegar íslenskur landbúnaður er að keppa við einhverjar stórar verslunarkeðjur í Evrópusambandinu sem fá svo safaríka styrki frá Evrópusambandinu.

Ég held að það sem ég kom inn á áðan, það að velja íslenskt, sé brot á samkeppni innan þess svæðis, sérstaklega ef slík markaðssetning er fjármögnuð með sköttum, vegna þess að Evrópusambandið á að vera ein viðskiptaheild og eitt markaðssvæði. Ef hún verður hins vegar fjármögnuð hér eftir með frjálsum félagsgjöldum til Samtaka iðnaðarins er ekki um markaðsskekkju að ræða.