138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Við erum með til umfjöllunar frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í meðförum allsherjarnefndar er gerð tillaga um breytingu á nafni frumvarpsins og lagt til að það heiti frumvarp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem lýsir miklu betur efni þess frumvarps sem er um að ræða. Hér er verið að setja ramma utan um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur en það er ekki verið að taka afstöðu til eða ganga lengra í því að kynna til sögunnar þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði í lok ræðu sinnar að það mundi kannski koma mörgum á óvart þegar frumvarp þetta fer í gegn að það skuli ekki vera um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Eins og við þekkjum er það einungis í þremur tilvikum sem stjórnarskráin heimilar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og það er þegar um er að ræða synjun forseta á lögum frá Alþingi, þegar breyta þarf kirkjuskipan eða þegar forseta er vikið frá. Við höfum í tvígang reynslu af því að forseti Íslands hafi nýtt sér heimild þá sem lengst af hefur verið mjög umdeild. Ég hef ekki verið sammála túlkun forseta lýðveldisins á synjunarvaldi sínu og heimild hans til að flytja mál til þjóðarinnar. Ég hefði talið að í samræmi við þau sjónarmið sem hafa lengst af verið uppi í stjórnskipunarrétti væri sú heimild ekki fyrir hendi en þegar forseti hefur nú í tvígang túlkað stjórnarskrána með þeim hætti að unnt sé að vísa málum til þjóðarinnar til bindandi niðurstöðu þá gerir það auðvitað það að verkum — það hefur reyndar verið skoðun okkar sjálfstæðismanna alveg frá 2004 þegar forseti synjaði lögum í fyrra sinn að það væri ástæða til að endurskoða þann þátt stjórnarskrárinnar. Eftir synjunina 5. janúar vegna Icesave-samningsins hefur sú skoðun fengið mun meiri hljómgrunn hjá þeim flokkum sem andmæltu því áður að nauðsynlegt væri að breyta 26. gr. og töldu afar mikilvægt að þessi öryggisventill forsetaembættisins væri fyrir hendi. En svona blása hinir pólitísku vindar. Þarna hefur orðið viðhorfsbreyting og ég tel ekki ástæðu til annars en að ætla að þegar menn fara í það verk að endurskoða stjórnarskrá, sem ef að líkum lætur mun styttast í verði frumvarp ríkisstjórnarinnar að veruleika sem nú er til umfjöllunar í allsherjarnefnd, þá muni þetta verða einn af þeim þáttum sem menn munu skoða. Það vekur hins vegar spurningar um hvort ástæða sé til að vera með ákvæði í stjórnarskrá um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Atkvæðagreiðsla um Icesave-málið var um margt mjög merkileg. Hún hafði auðvitað afgerandi áhrif á framvindu þess máls og hún sýndi líka fram á að kjósendur eiga að sjálfsögðu alveg með sama hætti og þegar menn taka afstöðu til flokka fyrir kosningar í sveitarstjórnum og alþingiskosningum einnig að geta tekið afstöðu í einstökum málum sem varða þá sjálfa og það þjóðfélag sem þeir búa í. Ég tel það vera skynsamlegt fyrir okkur að velta því upp að smíða hér reglur um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur en það krefst mjög nákvæmra reglna til grundvallar og að miklum aga verði beitt við framkvæmd þeirra. Í mínum huga mundi þurfa töluvert stóran hluta manna úti í þjóðfélaginu til að kalla eftir slíkri atkvæðagreiðslu. En hitt er annað mál, það er andrúmsloftið nú í þjóðfélaginu, við skulum gæta okkar á því að meðhöndla ekki stjórnskipunina með þeim hætti að hún eigi alltaf að kallast á við tíðaranda sem getur kannski oft breyst en það er ekkert launungarmál og ég hjó líka eftir því í máli hv. þm. Péturs Blöndals að úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor þegar horft er til þéttbýlli svæða, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar, hljóta að vekja spurningar um hvaða skoðun kjósendur hafa á stjórnmálamönnum, málflutningi þeirra og framgöngu. Ég held að það sé óumflýjanlegt fyrir stjórnmálamenn að líta í eigin barm og reyna að skilja hvað það var sem olli því að stór hluti kjósenda í Reykjavík taldi ekki þörf á því að kjósa flokk sem hefði yfirlýsta stefnu, að stór hluti kjósenda í Hafnarfirði kaus að skila auðu og stór hluti kjósenda á Akureyri greiddi L–listanum atkvæði sitt. Reyndar er það dálítið öðruvísi þar sem um var að ræða framboð sem hafði verið starfandi í bæjarfélaginu í langan tíma og haft sjónarmið uppi í sínum málflutningi en engu að síður voru það skilaboð til hinna flokkanna um að það væri eitthvað athugavert við þá.

Ég hef velt því fyrir mér undanfarna daga og vikur eftir þessi úrslit hvort það megi túlka þau svo að kjósendur trúi hreinlega ekki því sem stjórnmálamenn segja, að það hafi verið of mikið um að menn gerðu ekki það sem þeir höfðu sagst ætla að gera og þegar svo fer og það stendur lengi yfir þá sé alveg eins gott að kjósa flokk sem hefur enga stefnu vegna þess að þá sé a.m.k. ekki verið að svíkja hana. Þetta eru stór orð en ég held að þetta sé samt sjónarmið sem við verðum dálítið að velta fyrir okkur. Við þurfum að spyrja okkur að því hvernig við getum mætt þessum áhyggjum kjósenda og gagnrýninni sem beindist jafnt yfir alla hefðbundnu stjórnmálaflokkana. Það er ekki hægt að skýra það með þeim hætti að einn hafi sérstaklega verið tekinn fyrir.

Þá kemur þessi spurning hvort það sé ástæða fyrir okkur að bjóða í ríkara mæli upp á að kjósendur geti milli kosninga tekið afstöðu til mikilvægra mála, kannski mála sem taka breytingum frá kosningum, aðstæður skapast í þjóðfélaginu sem eru með þeim hætti að ríkjandi stjórnvöld snúast t.d. í einstökum málum og fara þá gegn því sem menn stóðu fyrir í kosningabaráttu, hvort ástæða sé til þess að reyna að smíða reglur utan um slík mikilvæg mál þannig að þau færu beint í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru dæmi um það sem gleymast oft að kjósendur á sveitarstjórnarstigi taki afstöðu í beinu lýðræði eins og oft er kallað en það er þegar verið er að sameina sveitarfélög. Við þekkjum það mjög vel þegar verið er að sameina sveitarfélög að þá eru þær ákvarðanir bornar undir sveitarstjórn á viðkomandi stöðum og það á sér allt stoð í viðeigandi lögum þannig að þar sjáum við fordæmi fyrir því að slík mikilvæg hagsmunamál sveitarfélaganna og íbúanna eru borin beint undir kjósendur til samþykktar eða synjunar en ekki tekin um það ákvörðun af hálfu bæjarstjórnar án þess að kjósendur í viðkomandi sveitarfélagi komi að því. Ég held að það sé rétt fyrir okkar að minnast þessara atkvæðagreiðslna vegna þess að þetta hefur heppnast vel, menn hafa verið ánægðir með hvernig þetta hefur farið fram og það gleymist dálítið hversu skýrt þetta er þegar kemur að sameiningum sveitarfélaga. Ég held að þetta sé dæmi um mál þar sem er skynsamlegt að leita til íbúa um afstöðu þeirra. Það hefur stundum eins og við þekkjum þurft að fara í gegnum fleiri en eina atkvæðagreiðslu til að ná þeirri niðurstöðu sem kannski sveitarstjórnirnar eða valdhafar hafa viljað koma fram og stundum hefur það engan veginn gengið en það er þó alla vega ekki hægt að gera það án þess að það sé rætt við íbúana á viðkomandi stöðum.

Það skiptir í mínum huga miklu máli og í þessu andrúmslofti að frumvarpið fjalli um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við ræddum náttúrlega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að einhverju leyti í allsherjarnefnd en það voru engin efni til þess fyrir okkur á þessu stigi að taka mikla umræðu um það þar vegna þess að við vitum að það krefst breytinga á stjórnarskrá. Það hafa verið uppi sjónarmið um að gera slíkar breytingar en við höfum ekki enn sem komið er farið í djúpa umræðu um það á vettvangi allsherjarnefndar þó að vissulega hafi í vetur fjöldamörg mál verið þar á borðum sem snúa að ýmsum þáttum þessara hluta. Ég tek sem dæmi annað mál, persónukjör, þar sem við förum í kringum þessi mál og ræðum þau fram og aftur. Þetta mál er mjög mikilvæg rammalöggjöf utan um ákveðna hluti en ég er alltaf að færast nær þeirri niðurstöðu, alltaf nær og nær, að við ættum að ganga mun lengra í að beita þjóðaratkvæðagreiðslum í einstökum málum en við höfum verið tilbúin til að tala um. Þá er ég að tala um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það hefur verið sagt að það sé svo mikill ávinningur í því fólginn að hafa lög um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi í raun og veru binda þingmenn með þeim hætti að það yrði erfitt að fara gegn slíkri niðurstöðu. Þetta var t.d. mikið til umfjöllunar þegar við vorum að ræða um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og menn höfðu uppi mismunandi skoðanir á því hvaða áhrif slík ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla mundi hafa. Ég er alveg sannfærð um að í því felist ákveðin vísbending en ég get ekki borið saman slíka atkvæðagreiðslu og bindandi atkvæðagreiðslu þegar kemur að þessu vegna þess að það er aldrei þannig að alþingismenn, ef þeir hafa mjög eindregna sannfæringu í vissum málum þegar um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, geti horfið frá sannfæringu sinni. Við höfum nú heyrt það hér þar sem Evrópusambandsmálið er svo heitt hjá mörgum að það eru margir sem munu ekki fallast á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu gangi hún gegn sannfæringu manna. Það á reyndar líka við um stjórnarskrána eða stjórnarskrárbreytingar og þess vegna hefur verið svo mikilvægt í mínum huga og það hef ég rætt hér undir öðru máli, málinu um stjórnlagaþingið, þegar kemur að stjórnarskránni þegar það mál kemur inn í þingið úr stjórnlagaþinginu, að alþingismenn séu óbundnir af því sem þar kemur fram þó að vissulega komi mat þeirra til umræðu alveg eins og ef um væri að ræða stjórnskipunarnefnd. Svo ég haldi sjónarmiði mínu á lofti þá lít ég svo á að það sé alveg ljóst að alþingismenn hafi frjálsar hendur um það hvernig þeir líti á breytingar á stjórnarskrá og það geti aldrei verið öðruvísi en á grundvelli sannfæringar þeirra um það hvernig þjóðskipun landsins sé best háttað.

Þess vegna held ég í framhaldi af þessu, þó að það geti aldrei verið allsherjarlausn og megi aldrei einfalda hlutina svo að það sé hægt að koma með einfaldar lausnir á flóknum viðfangsefnum, að það sé ákveðið svar við því vandræðaástandi sem hefur verið að undanförnu að menn velti fyrir sér beinu lýðræði með mun ákveðnari hætti en gert hefur verið. Ég segi fyrir mig að flokkur sem leggur alla áherslu á frelsi einstaklingsins og hans val hlýtur að sjá að það rímar mjög vel við það grundvallarstef að kjósendur hafi tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri eða geti knúið stjórnmálamenn til að vísa málum til þjóðarinnar. Umgjörðin um það þarf auðvitað að vera mjög skýr og öguð. En þegar almenningur kallar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hann gerði auðvitað með því að skora á forseta lýðveldisins að hafna annars vegar fjölmiðlalögunum og hins vegar Icesave-lögunum, gríðarlegur fjöldi í bæði skiptin og reyndar óhemju margir í síðara skiptið vegna þess að það var greinilega mikill skoðanamunur manna á milli, kjósenda og okkar sem sitjum í þessum sal, er það ekki þingsins að ákveða hvenær slík mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hins vegar eðlilegt í þessu tilviki þegar um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það var töluvert um það rætt í nefndinni okkar góðu, allsherjarnefnd, þegar við vorum að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur hvort skoða ætti kjördæmaskipan, það kæmi af þessu, hvort við ættum að hverfa frá hinni hefðbundnu kjördæmaskipan. Um það eru líka afskaplega skiptar skoðanir. Það eru náttúrlega sjónarmið uppi um að landið eigi að vera eitt kjördæmi og sumir halda því fram að þegar við ræðum svona mál sé engin þörf á því að vera með kjördæmaskil. Ég er reyndar á þeirri skoðun að það sé miklu áhugaverðara að vera með miklu minni kjördæmi og hallast dálítið að því að við ættum að líta langt aftur í tímann og skoða einmenningskjördæmi þar sem þá yrði nálægðin töluvert mikil við kjósendur. Ég veit ekki hvort við getum kallað þetta þremenningskjördæmi en þegar við skoðun kjördæmaskipan — ég hef ekki hugmynd hvað gerist þegar menn fara að endurskoða stjórnarskrána — þá vona ég að menn festist a.m.k. ekki í þeirri hugmynd að landið sé eitt kjördæmi. Sú afstaða var tekin í allsherjarnefnd að það væru ekki efni til þess í frumvarpinu að leggja til breytingar á kjördæmaskipan. Hins vegar var ákveðið að það væri rétt að telja á einum stað til að þau sjónarmið sem fram kæmu í atkvæðagreiðslunni mundu birtast skýr á einum stað. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að endurskoða kjördæmaskipanina sem var ákveðin síðast. Ég tala fyrir mig sem hef reynslu af því að hafa verið annars vegar þingmaður hálfs Reykjavíkurkjördæmis og síðan þingmaður í Norðausturkjördæmi. Ég held því að þessa kjördæmaskipan verði að skoða og það er að vissu leyti furðulegt og skrýtið að Reykjavík sé tvö kjördæmi en miklu verra er það þó að vera þingmaður í kjördæmi af slíkri stærð sem landsbyggðarkjördæmin þrjú eru, Norðausturkjördæmi allt frá Siglufirði til Djúpavogs með mjög strjálbýlum svæðum þar á milli, ég tala ekki um Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, þannig að þar held ég að menn hafi gengið allt of langt í því að stækka kjördæmin. Þau eru líka svo ólík innbyrðis að það er á margan hátt erfitt að endurspegla þau sjónarmið sem þar eru uppi þannig að ég held að það sé óumflýjanlegt að þessi kjördæmaskipan verði endurskoðuð. Þetta var hluti af þeirri umræðu sem kom fram í allsherjarnefnd, það var farið svolítið um víðan völl um þessi mál og hvernig best væri að gera þetta.

Síðan í miðju kafi í umræðunni fórum við í atkvæðagreiðslu um Icesave. Þá vorum við búin að prufukeyra svona þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú framkvæmd gekk mjög vel og eftir það voru ekki efni til þess af hálfu allsherjarnefndar að gera verulegar breytingar á frumvarpinu til að laga einstaka þætti sem hefðu getað farið úrskeiðis í þeirri atkvæðagreiðslu þannig að ég held að það sé ágætisskref að koma með rammalöggjöf um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. En hin umræðan finnst mér miklu áhugaverðari og það væri gaman ef við mundum einhvern tíma skiptast á skoðunum um það. Það getur vel verið að við ættum að taka sérstaka umræðu um það utan dagskrár á góðum degi. Ég held að það sé margt sem bendir til þess að við eigum að skoða það rækilega að koma með reglur og hugmyndir um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum.