138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

aðför og gjaldþrotaskipti.

447. mál
[19:22]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

Allsherjarnefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins og frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Svein Óskar Sigurðsson, Friðrik Ó. Friðriksson og Arinbjörn Sigurgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til margvíslegar breytingar á lögum um aðför og lögum um gjaldþrotaskipti, m.a. að rýmkaðar verði heimildir til að gera árangurslaust fjárnám og einfalda ferli nauðasamninga. Meðal annars er lagt til að kveðið verði á um hvernig meta á að hvaða marki krafa sem tryggð er með veði teljist veðkrafa og að hvaða marki samningskrafa þegar veð hrekkur ekki til greiðslu kröfunnar að fullu. Þá er lagt til að hugtakið nákomnir í skilningi gjaldþrotaskiptalaga verði rýmkað þannig að það nái einnig til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri fyrirtækja. Einnig eru lagðar til breytingar sem koma í veg fyrir að skuldari geti á óeðlilegan hátt komið sér hjá gjaldþrotaskiptum með aðgerðaleysi. Þá er rýmkuð heimild til að láta erlenda ákvörðun um gjaldþrotaskipti eða nauðasamninga ná til eigna hér á landi þannig að hún sé ekki bundin við að gerður hafi verið alþjóðasamningur um slíkt.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Á eftir 19. gr. komi ný grein, svohljóðandi: Í stað orðanna „bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum“ í 2. mgr. 150. gr. laganna kemur: eftir fjárhæðum krafna þeirra.

Hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Birgir Ármannsson skrifa undir þetta álit með fyrirvara.

Hv. þingmenn Mörður Árnason og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu með fyrirvara.

Undir álitið rita auk undirritaðs hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Ögmundur Jónasson, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þráinn Bertelsson og Birgir Ármannsson.