138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

óeðlileg undirboð í vegagerð og byggingariðnaði.

408. mál
[12:57]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum aftur, þetta var ágætisádrepa sem ég er að mörgu leyti ef ekki öllu sammála.

Ég vil bæta því við að vitaskuld er sú staða uppi núna, eins og hv. þingmaður vék að í máli sínu, að sum fyrirtæki eru undir verndarvæng fjármálastofnana sem eðli máls samkvæmt eru mjög fjársterkar, en önnur ekki. Það getur skapað mjög óþægilega samkeppnisstöðu fyrir hin síðarnefndu. Að þessu verða fjármálafyrirtækin vitaskuld að huga og reyndar einnig þeir sem hafa eftirlit með þeim, hvort sem það er Samkeppniseftirlitið eða stofnanir sem hafa sérstaklega eftirlit með fjármálageiranum.

Það má ekki gerast að fyrirtækjum sé haldið á lífi umfram það sem eðlilegt má teljast vegna þess eins að þau eru komin í skjól hjá fjármálafyrirtækjum vegna fyrri hremminga og það verði til þess að fyrirtæki sem halda sjálfstæði sínu lengur lendi einnig í vandræðum. Það er mjög mikilvægt að bankarnir hegði sér með þeim hætti að þeir skekki ekki, umfram það sem óhjákvæmilegt er, samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eru þó ekki komin í fangið á fjármálafyrirtækjunum með því að halda samkeppnisaðilum þeirra á floti með fjármagni umfram það sem eðlilegt getur talist.