138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

lækkun launa í heilbrigðiskerfinu.

606. mál
[13:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og þær umræður sem spruttu hér í kjölfarið. Svör hæstv. ráðherra voru mestanpart mjög upplýsandi við spurningunum sem voru lagðar hérna fram.

Þó vil ég segja að eftir að hafa hlýtt á hæstv. ráðherra er mér ekki alveg ljóst hvert hið raunverulega markmið er. Hæstv. ráðherra segist vilja lækka laun þeirra sem hafa hærri laun í heilbrigðisgeiranum en mér er ekki ljóst hvort hæstv. ráðherra stefnir þar með að því að hæstu launin í heilbrigðisgeiranum fari niður í það sem hæstv. forsætisráðherra er með. Það væri gott ef hæstv. heilbrigðisráðherra greindi okkur frá því hvort það væri hið endanlega markmið í viðleitni hennar til að lækka launin í heilbrigðiskerfinu að stefna að því að hæstu laun í heilbrigðiskerfinu yrðu ekki hærri en laun hæstv. forsætisráðherra.

Í annan stað vil ég segja að ég hef alveg skilning á því að það þurfi að reyna að lækka launakostnaðinn í heilbrigðiskerfinu eins og annars staðar. Menn gera sér alveg grein fyrir því að við þær aðstæður sem við búum við núna þarf að huga að öllum þáttum, m.a. launakostnaðinum, það er alveg óhjákvæmilegt.

Kjarni málsins er hins vegar sá sem ég nefndi áðan og hæstv. ráðherra áréttaði mjög í ræðu sinni, markmiðið með heilbrigðiskerfinu hlýtur alltaf að vera númer eitt, tvö og þrjú að tryggja þjónustuna. Við verðum að reyna að gera það núna á ódýrari hátt, en til þess ber að líta, eins og hér hefur komið fram, að heilbrigðisstéttirnar eru mjög hreyfanlegar. Mjög margir hafa sótt sér menntun og þjálfun til útlanda, þekkja mjög vel til í þeim ranni og við sjáum nú þegar þá þróun að margir læknar fara til útlanda til að leita sér að viðbótarstörfum, gera það m.a. með þeim hætti sem hæstv. ráðherra talaði um áðan. Jafnvel þó að viðleitnin til að lækka launakostnaðinn sé skiljanleg getur afleiðingin orðið sú að okkur takist ekki að tryggja þjónustuna vegna þess að heilbrigðisstarfsmennirnir eru ekki til staðar. Það er það sem ég var að segja (Forseti hringir.) og vildi þess vegna hvetja hæstv. ráðherra til að reyna að leggja heildarmat á þetta, ekki bara tölulegt mat á launin heldur líka á afleiðingarnar (Forseti hringir.) sem gætu orðið í kjölfarið.