138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

bótagreiðslur til foreldra með sameiginlegt forræði.

655. mál
[14:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég lít svo á að þessi prýðilega fyrirspurn tæpi í rauninni á stærra máli, á stærri veruleika sem þarf að takast á við í íslensku samfélagi. Staðreyndin er sú að það er ekki búið að aðlaga íslenskt samfélag að þeim veruleika að fjölmargir foreldrar sem hafa skilið hafa tekið upplýsta ákvörðun í sátt um að ala saman upp börnin sín. Í kerfinu er almennt sterk tilhneiging til þess að gera minna úr því að foreldrar ákveði, eins og þeir hafa gert í sívaxandi mæli í íslensku samfélagi, að hafa sameiginlegt forræði og meira úr því að barnið hafi lögheimili á ákveðnum stað. Skyndilega sjáum við að lögheimilisforeldri hefur grunsamlega miklu meiri rétt en forræðisforeldrið sem hefur forræðið í sameiginlegri forsjá. Þessu þarf að breyta. Hægt væri að innleiða í kerfið (Forseti hringir.) möguleika á einhverju sem gæti heitið „jöfn búseta barns“ þannig að í praxís njóti barnið í raun og veru tveggja lögheimila.